Innlent

Byggja þarf 45 þúsund í­búðir á næstu 22 árum

Byggja þarf 45 þúsund í­búðir fyrir árið 2040 til þess að mæta þörf. Gera má tölu­vert betur í upp­­byggingu að mati sér­­­fræðinga Sam­­taka iðnaðarins, þrátt fyrir vöxt á undan­­förnum árum. Sam­tökin héldu opinn fund í morgun.

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur, Samtak iðnaðarins. Samsett mynd

Byggja þarf 45 þúsund íbúðir fyrir árið 2040 til þess að mæta þörf. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi Samtaka iðnaðarins um íbúðamarkaðinn sem haldinn var í morgun.

„Þarna þurfa ríki og sveitarfélög að koma saman og velta fyrir sér hvernig á að gera þetta,“ sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í erindi sínu. Þar var farið yfir hvernig íbúðaþörf hefur vaxið hraðar undanfarin ár og benti hann í þeim efnum á að Íslendingum hefði fjölgað um 10 þúsund á síðasta ári, en það er met.

Á sama ári fjölgaði íbúðum um rúmlega 1.700. Ingólfur setti íbúðafjöldann í samhengi við mannfjöldaþróunina og leiðir hún í ljós að hlutfallslega væru sex af öllum þeim sem fæddust á síðasta ári að bítast um eina nýja íbúð.

Fullgerðar íbúðir 6.713 árið 2020

Á fundinum var einnig farið yfir íbúðatalningu samtakanna, sem fram fer tvisvar á ári. Tölurnar kynnti Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði, en hann sér um talninguna. Þar kemur fram að frá árinu í ár og út árið 2020 muni fullgerðum íbúðum fjölga um 6.713 samtals. Í ár er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða sem klárist í byggingu verði 2.081 talsins. Um er að ræða 56 prósent aukningu frá árinu 2017.

Samkvæmt talningu Friðriks eru flestar íbúðir í byggingu þessa stundina í Reykjavík, eða 1.726 talsins. 1.048 eru í byggingu í Kópavogi, 594 í Garðabæ og 550 í Mosfellsbæ. Á Seltjarnarnesi eru 25 íbúðir í byggingu og 150 í Hafnarfirði. Samtals eru því 4.093 íbúðir í byggingu á höfuborgarsvæðinu samkvæmt könnuninni.

Hlutfallsleg aukning fullbúinna íbúa árin 2018 til 2020 er mest hjá Mosfellsbæ á hverja þúsund íbúa. Því næst kemur Garðabær og svo Kópavogur. Á eftir þeim koma Seltjarnarnes, Hafnarfjörður og aftast er Reykjavík.

Friðrik sagði uppbyggingu íbúða á landsbyggðinni sífellt verða umfangsmeiri og tók hann fyrir tölur hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, auk sveitarfélaga á Norðurlandi.

Í Árborg eru í byggingu 259 íbúðir og á Reykjanesi 277. Um er að ræða töluverða fjölgun frá fyrri árum og gerir framtíðarspá ráð fyrir að þeim muni fjölga í síðarnefnda sveitarfélaginu, einkum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Keflavíkurflugvelli og þeim störfum sem verða til vegna þess. Á Akranesi eru 117 íbúðir í byggingu, 43 í Grindavík, 29 í Hveragerði, 26 í Sandgerði og 25 á Hvolsvelli.

Á Norðurlandi hefur aukinn vöxtur í byggingu íbúða gert vart við sig og sagðist Friðrik sjálfur aldrei hafa séð annan eins vöxt og á Akureyri. Þar eru 363 íbúðir í byggingu, 29 á Húsavík en þar er hlutfallsleg fjölgun gífurleg. Í Eyjafjarðarsveit eru 22 íbúðir í byggingu, 14 á Sauðárkróki, 9 á Dalvík og 7 á Siglufirði.

Bæði Friðrik og Ingólfur bentu á að ákveðinn árangur hefði náðst og að nú horfði til betra vegar en áður fyrr. Kaupmáttur væri meiri og þá hefði framboð í fjölbýli aukist. Hins vegar stæðu hindranir í veginum og þá er enn gjá milli framboðs og eftirspurnar. Þar spilar lítið framboð lóða og hátt verð stóra rullu.

Nýta þarf tímann til þess að draga úr niðursveiflu

Ingólfur sagði raunverð hafa hækkað um 60 prósent frá botni og hefði sú hækkun birst í verðbólgu. Raunar sagði hann að verðbólga væri ekki mælanleg hér á landi ef ekki væri fyrir hækkun íbúðarhúsnæðis.

Erfiðara væri fjárhagslega fyrir ungt fólk að eignast íbúðir og vísaði hann í þeim efnum til talna sem sýndu að sífellt fleiri ungmenni á aldrinum 25 til 29 ára byggju enn í foreldrahúsum.

Benti hann á að dregið hefði úr hagvexti og væru blikur á lofti að slíkt myndi halda áfram. Losnað hefði úr framleiðsluþætti og slaknað á spennunni. Ítrekaði hann að nýta þyrfti tímann til þess að ganga í verkefni tengd byggingu nýrra íbúða í þeim tilgangi að draga úr niðursveiflu.

Stakk upp á stofnun innviðaráðuneytis

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hélt einnig erindi og kvað við sama tón og í erindi Friðriks og Ingólfs. Sagði hann að gjá hefði vissulega myndast milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaðnum. Skoraði hann á ríkið að taka höndum saman með sveitarfélögum í þeim tilgangi að vinna gegn húsnæðisvandanum. 

Tók hann dæmi um Kanada, Bretland og Danmörku þar sem unnið hefur verið að lausnum. Skoraði hann á ríkisstjórnina, og Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem var viðstaddur fundinn, að fylgja fordæmi Dana og sameina helstu málaflokka undir sérstakt innviðaráðuneyti.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Jón Diðrik fer úr stjórn Skeljungs

Innlent

Líf og sál til liðs við Siðferðisgáttina

Innlent

Sandra nýr verk­efna­stjóri Ís­lenska bygginga­vett­vangsins

Auglýsing

Nýjast

Horner dregur framboð sitt til baka

Tómas Már tekur sæti í stjórn Íslandsbanka

Loðdýrabú á Íslandi rekin með tapi frá 2014

Bjarni sest nýr í stjórn Símans

Hrönn fjórði stjórnandinn sem fer frá Sýn

Bjóða upp á fast leigu­verð í sjö ár

Auglýsing