Katrín M. Guðjónsdóttir er nýr sviðsstjóri markaðsmála hjá tæknifyrirtækinu Men&Mice. Katrín segir að síðastliðin ár hafi fyrirtækið lagt mikla áherslu á vöruþróun en nú sé stefnan sett á að byggja upp sterkja vörumerkjavitund erlendis.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég fæ kraft og næringu með því að vera úti í náttúrunni og leika mér. Ég stunda fjallgöngur, skíði, fjallahjólreiðar og fluguveiði. Ég get líka flokkað skemmtileg ferðalög, menningu og matarboð með góðum vinum sem áhugamál. Mér finnst mikilvægt að rækta garðinn minn og geri það t.d. með því að fara með ömmu minni á myndlistarsýningar.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég fer á fætur og drekk glas af fersku sítrónuvatni, þar næst geri ég graut sem ég hef þróað í mörg ár en hann inniheldur 50% af alls konar fræjum og 50% af hafragraut. Ég læt grautinn jafna sig, fer hring með hundinn, borða og fæ mér kaffi. Mér finnst best þegar ég hjóla í vinnuna og get fyllt á súrefnistankinn fyrir daginn en það gengur þó ekki alltaf upp vegna funda og þess háttar.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Fjölmargar bækur hafa haft áhrif á mig en sú allra fyrsta var bókin um Línu Langsokk sem er sterk fyrirmynd fyrir margar konur. Annars þá finnst mér sú bók sem ég les hverju sinni, vera sú bók sem hefur mestu áhrifin. Ég er að lesa tvær bækur sem stendur, önnur er bókin Becoming eftir Michelle Obama sem er mögnuð sjálfsævisaga með sterkum skilaboðum. Hin bókin heitir Educated eftir Tara Westover og fjallar um stúlku sem elst upp hjá foreldrum sem hafa enga trú á menntun. Hún þarf ung að velja leið sem markar hennar framtíð, um leið brýtur hún hefðir og treystir á sjálfan sig.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í markaðssetningu hjá tæknifyrirtæki á borð við Men&Mice?

Að sækja aukna markaðshlutdeild beggja vegna Atlantshafsins og auka vörumerkjavirði almennt í alþjóðlegu umhverfi. Samkeppnisaðilar okkar eru stórir en Men&Mice er að mörgu leyti með betri og þróaðri vöru. Helstu áskoranir á næstu mánuðum eru að vekja frekari athygli á vörunni á erlendri grundu. Heildarmarkaðurinn er að stækka og við ætlum okkur að taka stóran hlut af þeirri köku sem og hlutdeild af núverandi samkeppni.

Hvaða tækifæri eru fram undan hjá Men&Mice?

Ég er að byggja upp nýtt markaðsteymi alveg frá grunni. Ég tel mig vera með nýja sýn í þeim efnum og skipti teyminu í innra og ytra markaðssvið bæði til að tryggja fagleg gæði og líka út frá rekstrarlegu sjónarmiði. Þegar átt er við ytra markaðssvið þá er um að ræða sérhæfða ráðgjafa t.d. netmarkaðssetningu, vefstofu, auglýsingastofu og almannatengsl. Ég vel að gera þetta með ólíkum, minni og sérhæfðari ráðgjafarfyrirtækjum sem ég hef valið af kostgæfni.

Síðastliðin ár höfum við lagt mikla áherslu á vöruþróun en stefnum nú á að vera markaðsdrifið fyrirtæki. Næsta skref er að byggja upp sterka vörumerkjavitund erlendis.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir í nýju starfi, raða saman rétta fólkinu, fara inn á markaðinn með miklar væntingar um stóra sigra. Einnig hlakka ég til að taka þátt í Landvættinum á næsta ári með góðum vinkonum.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Eftir tíu ár stýri ég alþjóðamarkaðssviði Men&Mice með fjölda starfsstöðva um allan heim. Við verðum búin að ná okkar markmiðum með stóra markaðshlutdeild á okkar sviði. Ég verð vonandi við hestaheilsu með allt mitt góða fólk í kring um mig.

Helstu drættir

Nám:

MBA, Háskóli Íslands.
B.A. í Markaðsfræði og grafískri hönnun.

Störf:

Ég hef 15 ára reynslu í markaðsmálum, stefnumótun og vörumerkjastjórnun. Hef starfað sem markaðsstjóri olíufélaganna Skeljungs og N1, var markaðsstjóri Innnes auk þess að starfa að markaðsmálum fyrir Símann. Sat í framkvæmdastjórn hjá fjártæknifyrirtækinu Alva. Er stjórnarformaður hjá Manino og sit í stjórn Ímark.

Fjölskylduhagir:

Gift Pétri Arasyni M.Sc. rekstrarverkfræðingi, stofanda og eiganda Manino. Saman eigum við þrjú börn, Sunnevu Rán meistaranema í rekstrarverkfræði, Þórunni Sölku bachelornema í markaðsfræði og Pétur Ara menntaskólanema. Við eigum eitt barnabarn Yrju Katrínu sem er tveggja ára. Síðast en ekki síst þá eigum við hundinn Prelsa sem sjö ára enskur cocker spaniel.