Friðrik Már Þorsteinsson, stofnandi og eigandi Northcoast Sea­foods, segir að lykillinn að velgengni fyrirtækisins sé að velja rétta fólkið í kringum sig. Northcoast Seafoods veltir um 25 milljörðum króna á ári og flytur út 50 prósent af allri rækju sem er skelflett hér á landi. Fyrirtækið er stærsti innflutningsaðili á frosnum skelfiski á smásölumarkaði í Bretlandi. Friðrik lærði sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og útskrifaðist með B.Sc. Honors í sjávarútvegsfræði árið 1998. Lokaverkefni Friðriks sneri að markaðsstöðu skelflettrar kaldsjávarrækju.

„Þannig var að ég hafði unnið við fiskvinnslu og stundað sjómennsku síðan ég var unglingur. Þegar svo kom að lokaverkefnisvalinu vildi ég taka mér eitthvað fyrir hendur sem ég vissi lítið um. Ég hafði aldrei unnið við né veitt rækju og þegar mér bauðst að gera lokaverkefni fyrir Iceland Seafood um annað hvort markaðssetningu síldar eða rækju þá valdi ég rækju. Það var almennt séð lítill áhugi hjá mönnum á þessum tíma á að vera að eyða of miklum tíma í markaðspælingar á kaldsjávarrækju og í því sá ég tækifæri,“ segir Friðrik og bætir við að eftir námið hafi hann flutt til Hull og hafið störf hjá sjávarútvegsfyrirtæki við að greina markaðssetningu á kaldsjávarrækju.

„Fyrirtækið sem ég starfaði hjá varð gjaldþrota fimm mánuðum eftir að ég hóf störf hjá því og í kjölfarið ákvað ég að stofna mitt eigið. Ég stofnaði fyrirtækið í lok árs 2000 í samstarfi við Kangamiut Seafood í Danmörku. Ég var lengi vel eini starfsmaðurinn fyrir utan Karen, eiginkonu mína, sem sá um bókhaldið til að byrja með. Árið 2006 sameinuðum við svo alla rækjusölu Kangamiut undir Northcoast Sea­foods Denmark. Á svipuðum tíma fór ég að ráða starfsfólk til að sjá um hvítfisksölu.“

Hann bætir við að upp úr 2012 hafi fyrirtækið farið að skipta beint við stóru matvörukeðjurnar og þá hafi vöxtur fyrirtækisins tekið kipp.„Árið 2018 kaupum við síðan pökkunarstöð í Grimsby og förum í okkar eigin vinnslu. Í dag flytjum við út um 50 prósent af allri pillaðri rækju frá Íslandi. Veltan hefur vaxið jafnt og þétt og var um 142 milljónir punda í fyrra.“

Friðrik segir jafnframt að á síðasta ári hafi hann og konan hans keypt hlut í Kangamiut þannig að nú eigi þau 100 prósenta hlut í North­coast Seafoods. Í dag eru þau með 150 manns í vinnu og með pökkun og vinnslu í Grimsby.