Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG) hagnaðist um 1.505 milljónir króna í fyrra og minnkaði hagnaðurinn um liðlega 50 milljónir á milli ára.

Rekstrartekjur námu 13,53 milljörðum króna og jukust um 4,7 milljarða króna frá árinu 2018, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi. Tekjur vegna eignaleigu stóðu nánast í stað og voru um 770 milljónir, á meðan tekjur af verkframkvæmdum jukust verulega og námu tæplega 12,8 milljörðum króna.

Gunnar Þorláksson húsasmíðameistari og Gylfi Ómar Héðinsson múrarameistari, eiga hvor um sig helmingshlut í félaginu.

Eignir BYGG námu um 17,7 milljörðum í árslok 2019 og þar af voru fasteignir um 4,4 milljarðar. Eigið fé félagsins er um 7,2 milljarðar og er eiginfjárhlutfallið því rúmlega 40 prósent. Á árinu 2019 greiddi félagið 103 milljónir í arð til hluthafa.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrifin vegna kórónaveiru­faraldursins verði óveruleg á árinu 2020. Stjórnin telji að „rekstrarhæfi félagsins sé alls ekki í hættu vegna þessara þrenginga í samfélaginu.“