Eftirspurn eftir áli mun dragast saman um átta prósent á heimsvísu í ár að mati ráðgjafafyrirtækisins CRU. Helstu kaupendur málmsins, þar á meðal alþjóðlegir bílaframleiðendur, hafa dregið verulega úr framleiðslu að undanförnu vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Í frétt Financial Times segir að minnkandi eftirspurn eftir áli geti gert það að verkum að offramboð af málminum muni nema allt að sex milljónum tonna í ár eða fjórum milljónum tonna ef stærstu álframleiðendurnir, þar á meðal Alcoa og Rio Tinto, bregðast fljótt við með því að loka álverum.

Til samanburðar myndaðist offramboð af áli upp á 3,9 milljónir tonna í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið yfir heimsbyggðina árið 2008.

„Það mun verða talsverð umframframleiðsla,“ segir Eoin Dinsmore, greinandi hjá CRU, um horfurnar á alþjóðlegum álmarkaði. „Það verður ómögulegt að forðast það,“ bætir hann við.

CRU gerir ráð fyrir að álverum sem framleiða árlega samanlagt um niu hundruð þúsund tonn verði lokað í Kína í ár. Á sama tíma verði álverum með framleiðslu upp á ríflega eina milljón tonn lokað annars staðar í heiminum.

Dinsmore segir sérfræðinga CRU búast við framleiðsluminnkun hjá stóru álframleiðendunum, sér í lagi í álverum í Evrópu og Ástralíu.

Alcoa greindi frá því í fyrra að framleiðandinn hygðist á næstu fimm árum endurskoða hluta af álframleiðslu sinni. Þá hefur Rio Tinto hótað því að loka álverum sínum á Íslandi og Nýja-Sjálandi, meðal annars raforkuverðið sem það býðst þar verður ekki lækkað.

Heimsmarkaðsverð á áli hefur verið á niðurleið eftir að það fór upp í 2.500 dali á tonnið fyrir um tveimur árum. Það stendur nú í um 1.600 dölum á tonnið og hefur ekki verið lægra í fjögur ár.

Fyrr í dag greindi En+, móðurfélag rússneska álframleiðandans Rusal, að hagnaður síðasta árs hefði dregist saman um alls þrjátíu prósent, þá einkum vegna minni eftirspurnar, og að enginn arður yrði af þeim sökum greiddur út.

Colin Hamilton, greinandi hjá BMO Capital Markets, býst við harðari viðbrögðum við minnkandi eftirspurn af hálfu álframleiðenda en spár CRU gera ráð fyrir og telur að offramboðið í ár muni nema um 1,35 milljónum tonna. Það yrði talsvert minni umframframleiðsla en sérfræðingar CRU reikna með.

„Það er tvímælalaust þörf á framleiðsluminnkun,“ nefnir hann í samtali við Financial Times.