Warren Buffet, forstjóri og stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway, telur rangt af fyrirtækjum að þvinga hugmyndum sínum um samfélagslega ábyrgð upp á samfélagið og stjórnendur fyrirtækja eigi ekki að ráðstafa fjármunum hluthafa á þeim grundvelli.

Markaðurinn fjallaði í vikunni um aukninguna í því að íslensk fyrirtæki tækju afstöðu til samfélagslegra og pólitískra mála. Í umfjöllun Financial Times, sem birt var rétt fyrir síðustu áramót, voru rifjuð upp ummæli Buffets frá því fyrr á árinu. Berkshire Hathaway hefur, í gegnum fyrirtæki sín, fjárfest fyrir 30 milljarða Bandaríkjadala í vindmyllum og innviðum í Iowa-ríki en markmiðið er að þar verði þungamiðja vindorkuframleiðslu heimsins.

Margir fjárfestar og atvinnurekendur myndu segja að áherslan á endurnýjanlegan orkugjafa endurspeglaði samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins. Þannig er að minnsta kosti hugsanagangurinn í flestum stórfyrirtækjum þessa dagana, og hann kemur fram í ársskýrslum þeirra og auglýsingum. En Warren Buffet vill ekki heyra minnst á þetta. Hann fjárfesti í vindorku einungis vegna þess að stjórnvöld greiddu honum fyrir að gera það. „Við myndum ekki gera þetta án skattaaflsláttarins sem við fáum,“ segir hann.

Buffet, oft kallaður véfréttin frá Omaha, gengur síðan skrefinu lengra. Hann segir það rangt af fyrirtækjum að þvinga hugmyndum sínum á samfélagslegri ábyrgð upp á samfélagið og spyr hvað valdi því að fyrirtæki telji sig vita betur. „Ef þú nefnir 20 stærstu fyrirtækin þá veit ég í raun ekki hvert þeirra hegðar sér best og ég held að það sé erfitt að leggja mat á hvað þau séu að gera. Mjög erfitt. Mér finnst gott að borða nammi. Er nammi gott fyrir mig eða ekki? Ég veit það ekki.“

Og jafnvel þó að stjórnendur Berkshire viti hvað sé heiminum fyrir bestu þá sé rangt að fjárfesta á þeim grundvelli vegna þess að þeir vinna í umboði hluthafa. „Þetta eru fjármunir hluthafanna,“ segir Buffet en Berkshire hefur hætt því að gefa til góðgerðamála af prinsippástæðum. „Margir stjórnendur fyrirlíta úthlutun ríkisins á skattfé en fagna eigin úthlutun á fé hluthafa.“