Allt að 20 þúsund manns gætu misst vinnuna hjá þýska bankanum Deutsche Bank en fyrirtækið hyggst ráðast í róttækar breytingaraðgerðir á starfsemi sinni. Búist er við að yfirstjórn bankans samþykki fyrirhugaðar breytingar í dag.

Ákveðið var að ráðast í endurskipulagningu starfseminnar í kjölfar þess að viðræður um samruna bankans við keppinaut sinn Commerzbank mistókust í apríl síðastliðnum. Þýsk stjórnvöld höfðu stutt samrunann í von um að skapa þar með einn öflugasta viðskiptabanka heims.

Deutsche Bank hefur undanfarin ár glímt við halla í rekstri sínum á fjárfestingarbönkum og hafa reynt nokkrum sinnum að bæta starfsemi þeirra. Nú er talið að bankinn ætli í stórar aðgerðir til að reyna að laga stöðu sína og má þá búast við fyrrnefndum 20 þúsund uppsögnum.

Um er að ræða um fimmtung starfsmanna bankans um allan heim en búist er við að uppsagnirnar verði flestar í London og New York þar sem starfsemi fjárfestingabanka fyrirtækisins er mest. Deutsche Bank er þannig með 8.000 starfsmenn í London sem nú lifa í mikilli óvissu með framtíð sína.

Auk þess sem bankinn hefur átt erfitt uppgangs á fjárfestingamarkaðinum undanfarið hefur hann einnig lent í nokkrum hneykslismálum. Í fyrra var þannig til rannsóknar hvort bankinn tæki þátt í að hjálpa viðskiptavinum sínum að koma peningum sínum fyrir í skattaskjólum.

Frétt BBC um málið.