Nettó hefur náð markmiði sínu um að tífalda veltu í netverslun sinni á innan við þremur árum. Netverslunin er að ná þeirri stærðarhagkvæmni sem þarf til að hún verði arðbær og fyrirtækið býr sig undir að samkeppnin harðni á þessu ári. Þetta segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa sem reka Nettó.

„Við höfum séð stöðugan vöxt frá því að við settum netverslunina í loftið og janúar var stærsti mánuðurinn frá upphafi. Hins vegar höfum við vísvitandi reynt að stjórna vextinum til þess að passa upp á gæðin og forðast of mörg mistök. Allir sem hafa verslað á netinu vita að það þarf ekki mikið til að fæla viðskiptavini frá kaupum og þá er erfitt að ná þeim til baka. Okkur hefur tekist þetta og nú förum við að stíga á bensíngjöfina,“ segir Gunnar Egill í samtali við Markaðinn.

Netverslun Nettó fór í loftið haustið 2017 í samstarf við Aha, sem þróaði tæknina og sér um heim­sendingar. Viðskiptavinir geta einnig valið að sækja pantanir í verslanir Nettó. Upphaflega var aðeins einn afhendingarstaður en í sumar var lokið við að innleiða afhendingu á öllum þeim svæðum þar sem Nettó rekur verslanir.

Samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar jókst netverslun í flokki stórmarkaða og dagvöruverslana um 230 prósent í nóvember 2019 miðað við sama mánuði árið 2018. Veltan á netinu í nóvembermánuði í fyrra nam alls 180 milljónum króna samanborið við 54 milljónir í nóvember 2018. Gunnar Egill segir að hlutfall netverslunar í rekstri Nettó sé hátt í samanburði við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum.

„Ef við skoðum til dæmis breska markaðinn þá er hlutfallið hjá okkur með því besta sem finnst. Þetta segir okkur að þótt Íslendingar séu stundum seinir að innleiða tækninýjungar eru þeir mjög fljótir að tileinka sér þær. Við höfum séð svipaða þróun með sjálfsafgreiðslukassana sem eru nokkuð nýleg tækni hér á landi en hafa verið til staðar í meira en 10 ár í sumum nágrannalöndum,“ segir Gunnar Egill.

f26101018 gunnaregil 06.jpg

„Það tekur á bilinu þrjú til fimm skipti fyrir fólk að byrja að tileinka sér regluleg innkaup á netinu og við höfum reynt að hanna kerfið þannig að innkaupin séu eins auðveld og mögulegt er. Til dæmis man kerfið hvað þú hefur keypt áður og auðveldar þér að velja vörurnar sem þú kaupir í hverri viku. Ef þú vilt bæta einhverju við þá er leitarvélin síðan mjög skilvirk.“

Hafa vaxið í góða stærð

Sérfræðingar á sviði netverslunar hafa bent á að fá dæmi séu um arðbærar netverslanir. Spurður hvort hann sjái fram á að rekstur netverslunar Nettó verði arðbær svarar Gunnar Egill játandi.

„Þú getur rekið arðbæra netverslun ef þú færð viðskiptavini til að sækja vörurnar. En ef þú ætlar að bjóða upp á heimsendingar þarftu að ná stærðarhagkvæmni sem ég held að við séum að ná núna. Við erum búin að vaxa í góða stærð á flestum afhendingarstöðum,“ segir Egill Gunnar og nefnir þrjú atriði sem hann telur að muni gera Nettó kleift að reka arðbæra netverslun til framtíðar litið.

„Ef þú ætlar að bjóða upp á heimsendingar þarftu að ná stærðarhagkvæmni sem ég held að við séum að ná núna. Við erum búin að vaxa í góða stærð á flestum afhendingarstöðum.“

„Íslenski markaðurinn er lítill og þess vegna ákváðum við að fara þá leið að tína vörur til afhendingar í verslunum okkar í stað þess að reka miðlægt vöruhús. Við fundum Aha sem samstarfsaðila til að geta notað tæknigrunn sem var þegar til staðar frekar en eyða tíma og orku í að þróa tæknina frá grunni. Og svo erum við að nota heimkeyrslukerfi Aha sem eru sérfræðingar í því að besta heimkeyrsluna,“ segir Gunnar Egill.

Aðspurður segir Gunnar að mesta áskorunin sé að halda verkferlum nógu einföldum þannig að hver starfsmaður geti stokkið til og tínt pantanir til.

„Ég tel að við séum búin að ná stærðarhagkvæmni í mörgum verslunum og nú er verkefnið að besta tínsluna. Á ákveðnum tímum dags getur myndast mikið álag á vinsælustu afhendingarstöðunum og þá er meiri hætta á að einhver geri mistök. En ég lít á það sem lúxusvandamál,“ segir Gunnar Egill.

Fóru inn á réttum tíma

Nettó og Heimkaup eru nú stærstu fyrirtækin í sölu á matvöru á netinu. Önnur stór smásölufyrirtæki á borð við Hagkaup hafa ekki hætt sér inn á markaðinn en samkeppnin mun harðna á þessu ári að sögn Gunnars Egils.

„Ég tel að við höfum farið inn á markaðinn á hárréttum tíma en aftur á mót geta keppinautarnir lært af mistökum sem við höfum gert. Það er ókosturinn við það að vera fyrstur af stað.“

„Það væri í raun ótrúlegt ef aðrar matvöruverslanir væru ekki að undirbúa innkomu á markaðinn. Sérstaklega í ljósi árangursins sem við erum að sjá og mikils vaxtar í sölu á matvöru á netinu. Maður hittir fleiri og fleiri sem hafa prófað á að kaupa matvöru á netinu og sú þróun mun fyrirsjáanlega halda áfram. Ég er viss um að eftir tíu ár muni kröfur viðskiptavina verða mjög ólíkar því sem við erum vön í dag,“ segir Gunnar Egill.

„Við erum allavega að búa okkur undir harðari samkeppni á þessu ári. Ég tel að við höfum farið inn á markaðinn á hárréttum tíma en aftur á mót geta keppinautarnir lært af mistökum sem við höfum gert. Það er ókosturinn við það að vera fyrstur af stað.“

Ánægjulegar hliðarsögur

Gunnar Egill að netverslun sé umhverfisvænn valkostur í innkaupum. Til að mynda notast Aha, sem keyrir vörurnar út fyrir Nettó, eingöngu við rafmagnsbíla og í lok árs var milljónasti kílómetrinn ekinn í heimkeyrslu. Þá sé tímasparnaðurinn einnig stór kostur.

„Samkvæmt rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar í Bandaríkjunum kemur fram að hver viðskiptavinur eyðir um það bil 40 mínútum í að versla á um það bil fimm daga fresti. Eldra fólk, slasað eða veikt fólk segir okkur reglulega sögur af því hvernig þetta léttir því lífið. Þetta eru ánægjulegar hliðarsögur sem voru ekki inni í hugmyndafræðinni til að byrja með.“

netto.jpg

800 milljónir í afslætti

Árið 2015 ýttu Samkaup verkefninu „Minni Sóun – Allt nýtt“ úr vör þar sem áherslan er á aukna flokkun og minni sóun matvæla. Allar verslanir Samkaupa bjóða nú stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag. Vöruverð lækkar eftir því sem líftími vöru styttist og stuðlar þetta að minni sóun matvöru. Samkvæmt gögnum frá Samkaupum hafa afslættirnir sem viðskiptavinir hafa fengið vegna verkefnisins numið tæpum 800 milljónum króna frá árinu 2016.