Net­verslun jókst mikið í heims­far­aldrinum og mun ef­laust ekki minnka aftur. For­stöðu­maður markaðs­deildar Póstsins, Kristín Inga Jóns­dóttir, segir að ís­lensk net­verslun hafi í raun átt mikið inni fyrir heims­far­aldurinn og að Ís­lendingar hafi verið tölu­verðir eftir­bátar ná­granna­þjóða okkar þegar kom að net­verslun.

Hún bendir á að sam­kvæmt skýrslu frá Rann­sóknar­setri verslunarinnar frá árinu 2018 hafi komið fram að net­verslun hafi verið 2,9 prósent af allri heildarsmá­sölu­verslun á Ís­landi árið 2017. Á sama tíma var hún 10,4 prósent í Sví­þjóð og 11 prósent í Dan­mörku.

„Árið 2020 var velta í net­verslun 7% af heildar­veltu þannig að ís­lensk net­verslun á enn þá mikið inni og allir helstu sér­fræðingar í þessum málum spá á­fram­haldandi vexti,“ segir Kristín Inga sem telur klárt að þessi aukning í net­verslun sé komin til að vera.

Það er oft mikið að gera hjá Póstinum um jólin og í aðdraganda þeirra.

Stórir verslunardagar fram undan

Hún segir að síðustu þrjá mánuði ársins 2020 hafi verið gríðar­leg aukning í magni pakka­sendinga og að gripið hafi verið til ýmissa að­gerða á árinu til að vera enn betur í stakk búin til að takast á við þá aukningu sem búist er við næstu mánuði en fyrir utan jólin þá eru þrír stórir verslunar­dagar fram undan, það er Svartur föstu­dagur [e. Black Fri­day], Staf­rænn mánu­dagur [e. Cyber Monday], og Dagur ein­hleypra [e. Sing­les day].

„Fjár­fest hefur verið í nýjum pakka­flokkara í Póst­mið­stöð okkar á Stór­höfða sem er með fimm­falda af­kasta­getu í flokkun á við eldri búnað. Og ferli breytt á flokkun vegna út­keyrslu á höfuð­borgar­svæðinu sem flýtir lestun bíla þannig að hún verður þriðjungur af því sem áður var,“ segir Kristín Inga.+

Hún segir að tugum bíla verði bætt við flotann til að takast á við aukna út­keyrslu á á­lags­tímum auk þess sem Póst­boxum verður fjölgað en það eru sjálfs­af­greiðslu­stöðvar sem eru opnar allan sólar­hringinn.

„Við erum einnig komin með nýtt app og mögu­leika fyrir við­skipta­vini á sjálf­virkri skuld­færslu sem auð­veldar og hraðar ferlinu með sendingar frá út­löndum. Með vandaðri raf­rænni skráningu sendinga og með réttum upp­lýsingum um sendanda og við­takanda þá verður allt liprara og skil­virkara. GSM númer við­tak­enda eru til dæmis mjög mikil­vægar upp­lýsingar sem auð­velda alla vinnslu, upp­lýsinga­gjöf til við­takanda og af­hendingu. Allt mun þetta hjálpa til við að koma sendingum hratt og örugg­lega á leiðar­enda,“ segir Kristín Inga.

Flogið með allan póst

Nokkuð hefur verið fjallað um gáma­skort í heims­far­aldrinum og að það hafi tafið vöru­flutninga í heiminum. Kristín Inga segir að það snerti þeirra starf­semi ekki beint því allur þeirra póstur, bæði til og frá út­löndum, komi í dag með flugi.

„Síðustu mánuði hafa verið veru­legir hnökrar á flutninga­leiðum til og frá landinu en nú horfir til betri vegar þó svo að af­kasta­geta í flutninga­leiðum sé ekki komin á sama stað og fyrir Co­vid. Það er því ekki verra að vera tíman­lega í að senda jóla­gjafirnar af stað til út­landa. Við fögnum þeim svo sannar­lega sem koma snemma með sendingarnar til okkar,“ segir Kristín Inga en síðustu skila­daga fyrir jól má sjá hér að neðan:

Sendingar utan Evrópu: 6. desember
Sendingar innan Evrópu: 13. desember
Sendingar innan­lands 20. desember