Viðskiptalífið hefur ríka hagsmuni af því að gjaldþrot gangi fyrir sig með réttum og sanngjörnum hætti gagnvart kröfuhöfum, og „svörtu sauðirnir í þeim efnum séu dregnir í viðeigandi dilka“. Þetta segir Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Markaðinn.

Sveinn Andri tekur fram að gjaldþrot fyrirtækja sé ekkert til að skammast sín fyrir, heldur eðlilegur þáttur í viðskiptalífinu. Aftur á móti eru tvær meinsemdir tengdar gjaldþrotum fyrirtækja of algengar að hans mati.

Það er annars vegar kennitölu­flakk, þar sem atvinnurekandinn notar gjaldþrot til að hreinsa út skuldir, hefja sama rekstur á ný og skilja kröfuhafa eftir með sárt ennið. Hins vegar er það undanskot eigna í aðdraganda gjaldþrotaskipta, greiðsla valinna krafna og aðrir gjörningar sem mismuna kröfuhöfum.

„Í öfgafyllstu tilvikunum er um hvort tveggja að ræða, þar sem ásetningur verður til um að strípa félag af eignum, tæma það að innan og um leið að sjá til þess að aðrir en nákomnir kröfuhafar beri skarðan hlut frá borði,“ segir Sveinn Andri.

„Það er alveg hægt að selja eignir, greiða skuldir og gera ýmsa gerninga í aðdraganda gjaldþrotaskipta,“ bætir hann við. „Það skiptir hins vegar máli hvernig það er gert.“

„Ávallt er sú hætta til staðar að stjórnendur félags nái að vefja óvönum skiptastjóra um fingur sér.“

Löggjafinn hefur sett í lög tvenns konar úrræði til að bregðast við alls kyns undanskotum og mismunun í tengslum við gjaldþrotaskipti. Annars vegar riftunarreglur sem veita skiptastjórum þrotabúa úrræði til að endurheimta verðmæti sem skotið hefur verið undan, eða vinda ofan af gerningum sem brjóta gegn jafnræði kröfuhafa.

Hins vegar er í hegningarlögum ákvæði um svokölluð skilasvik, en það getur varðað allt að sex ára refsingu að skerða rétt lánardrottna með undanskoti eigna, sölu eigna fyrir óhæfilega lágt verð og öðrum álíka gerningum.

„Þótt lagaramminn sé skýr eru stjórnendur að komast upp með að hlunnfara kröfuhafa í alltof miklum mæli,“ segir Sveinn Andri og nefnir þrjár ástæður. Í fyrsta lagi eru störf skiptastjóra oft ekki að skila tilætluðum árangri, í öðru lagi er of lítið um það að skiptastjórar tilkynni refsiverða háttsemi til lögreglu og í þriðja lagi vantar meiri slagkraft og fjármagn í þennan málaflokk hjá embætti héraðssaksóknara.

„Miðað við þann mikla fjölda gerninga sem skiptastjórum hefur þó tekist að rifta, er með ólíkindum hversu fá af þeim málum hafa ratað til héraðssaksóknara. Í fjölmörgum þeirra tilvika er uppi ásetningur til undanskota eða mismununar kröfuhafa og eru þá ótalin öll undan­skotin og riftanlegu gerningarnir sem fara fram hjá skiptastjórum,“ segir Sveinn Andri. „Það er með öllu óskiljanlegt í raun að ekki skuli vera á borðum dómstóla fleiri sakamál vegna refsiverðra skila­svika.“

Héraðsdómarar skipa skiptastjóra og þegar kemur að stórum og flóknum þrotabúum leitast þeir við að skipa lögmann með reynslu. Þeir sem eru nýrri í faginu fá frekar eignalítil bú. „En stundum er ekki gott að sjá þetta fyrir fram og ávallt er sú hætta til staðar að stjórnendur félags nái að vefja óvönum skiptastjóra um fingur sér.“

Reynir oft á samstarf við kröfuhafa

Ef litlar sem engar eignir hafa verið skildar eftir í þrotabúi ábyrgjast kröfuhafar gjarnan kostnað af aðgerðum skiptastjóra. Sveinn Andri segir mikilvægt að eiga gott samstarf við kröfuhafa þegar ráðast þarf í víðtækar aðgerðir til að endurheimta eignir og vísar til skiptanna á hinu umdeilda þrotabúi EK1923 ehf. sem var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum og hafði sjö dómsmál í för með sér.

„Þar lögðu menn upp með það plan að vinna nokkur lítil riftunarmál, sem gæfu þrotabúinu slagkraft til þess að vinna stærsta riftunarmálið sem tengdist undanskoti á fasteign félagsins, en það myndi duga til að gera upp allar kröfur,“ segir Sveinn Andri.

Hann hefur áður lýst yfir að gjaldþrotaskiptameðferðin á EK1923 sé sú „árangursríkasta í sögu íslensks gjaldþrotaréttar“. Um 600 milljónir króna fengust upp í kröfur, en við gjaldþrotaskipti búsins voru tæplega 7 milljónir á reikningum félagsins.