Brynhildur S. Björnsdóttir og Brynja Blanda Brynleifsdóttir eru nýir meðeigendur í byggingarfyrirtækinu GG Verk og hafa tekið sæti í stjórn félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Helgi Gunnarsson stofnaði GG Verk ásamt bróður sínum Gunnari Gunnarssyni árið 2006 en Gunnar hefur nú ákveðið að færa sig yfir í tengt félag í eigu þeirra bræðra og selur um leið helmingshlut sinn í GG til nýrra hluthafa.

Helgi verður áfram framkvæmdastjóri félagsins og á sæti í stjórn. Sameiginlegur hlutur hans og Brynhildar nemur 90 prósent eignarhlutfalli á móts við 10 prósent hlut Brynju.

Brynhildur S. Björnsdóttir, Helgi Gunnarsson og Brynja Blanda Brynleifsdóttir.
Mynd/Aðsend

Brynhildur starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins á árunum 2014-2019 en hún hefur nú gerst stjórnarformaður þess. Hún er með M.Sc. gráðu í stefnumiðaðri stjórnun og lýkur framhaldsnámi í Harvard Business School síðar á árinu. Hún lét nýverið af störfum sem stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands og situr í stjórnum fleiri félaga.

Brynja Blanda hefur starfað sem fjármála- og aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins frá því snemma á árinu 2020 og starfaði áður við fjármála- og stjórnunarstörf hjá Egilsson ehf/A4, Sjöstjörnunni/Subway, Latabæ ofl.

Hún er viðskiptafræðingur að mennt og hefur jafnframt lagt stund á MBA nám. Brynja hefur áralanga reynslu af stjórnarsetu og sat m.a. í stjórn Egilsson ehf/A4 á árunum 2013-2017 og nú í Uniconta Ísland ehf.

„GG Verk verður 15 ára á árinu og hefur fest sig í sessi í hópi stærstu byggingarverktaka á landinu. Félagið hlaut alþjóðlega ISO9001 gæðavottun árið 2015 og var þar með annar byggingarverktakinn á landinu til að ná þeim áfanga,“ segir í tilkynningunni.