Samband íslenskra auglýsingastofa, SÍA, telur að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði myndi hafa verulegar afleiðingar á sjónvarpsauglýsingar og neytendur missa mikilvægar upplýsingar um vörur og þjónustu.

Þetta kemur fram í umsögn SÍA við frumvarpi Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu sem felur í sér takmarkanir á fyrirkomulagi auglýsinga RÚV. Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki.

„Um það verður vart deilt að frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti. Á sama tíma og samkeppnisstaðan er skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins standa einkareknir innlendir fjölmiðlar frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn,“ segir ‏‏‏þingmaðurinn í greinargerð sinni.

Óli Björn segir einkarekna innlenda fjölmiðla standa frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn. Yfirburðarstaða RÚV skekki samkeppnisstöðuna.
Fréttablaðið/Aðsend

„Í stað þess að taka RÚV af auglýsingamarkaði ættu aðgerðir frekar að snúast um að auka styrki til dagskrárgerðar á frjálsum fjölmiðlum.“

SÍA telur mikilvægt að skoða hverjar afleiðingar þess að taka RÚV af auglýsingamarkaði yrðu í stærra samhengi en einungis með tilliti til einkarekinna fjölmiðla.

„Í stað þess að taka RÚV af auglýsingamarkaði ættu aðgerðir frekar að snúast um að auka styrki til dagskrárgerðar á frjálsum fjölmiðlum,“ segja samtökin sem leggjast alfarið gegn frumvarpi Óla Björns.

SÍA tekur undir með Óla Birni að fjölmiðlar á Íslandi hafi veikst vegna tilkomu erlendra fjölmiðla hér á landi og breyttrar fjölmiðlaflóru. Almenningur eyði sífellt meiri tíma á samfélagsmiðlum, í áhorf erlendra streymisveitna, hlustun hljóðvarpa og almenna notkun á netinu þar sem aðgengi auglýsinga er takmarkað.

Samtökin telja að með brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði myndi fjármagnið að miklu leyti færast út úrlandi.

Almenningur eyðir sífellt meiri tíma á samfélagsmiðlum og í áhorfi erlendra streymisveitna.
Fréttablaðið/Getty

Þurfa stóra og sterka miðla

SÍA bendir á að aðrar sjónvarpsstöðvar hafi ekki sama áhorf og RÚV.

„Áhorf á fréttir RÚV er rúmlega 22% og vinsælasta efnið á RÚV fer almennt yfir 40% á meðan vinsælasta efni Stöðvar 2 er undir 10% og vinsælasta efni Sjónvarps Símans er undir 5%,“ segir í umsögn SÍA.

Það að taka RÚV af auglýsingamarkaði myndi að mati samtakanna ekki auka áhorf á aðrar íslenskar sjónvarpsstöðvar og þar með myndi fjármagn, sem nú fer í auglýsingar á RÚV, ekki færast yfir á hinar sjónvarpsstöðvarnar.

„Brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði myndi leiða til verri nýtingar á birtingafé fyrirtækja, hærri kostnaðar og þar af leiðandi hærra vöruverðs. Það sé mikilvægt fyrir auglýsendur að hafa aðgang að sterkum íslenskum miðlum til að byggja upp sín vörumerki og efla samkeppni.“

Niðurstaðan yrði sú að fjármagn til sjónvarpsauglýsinga myndi minnka sem myndi hafa áhrif á auglýsingastofur og fólk í skapandi greinum, s.s. kvikmyndagerðarfólk, leikara, stílista, tónlistarfólk og starfsfólk í eftirvinnslu.

SÍA telur að áhorf muni ekki breytast ef RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði.