Icelandair áætlar 130 brottfarir í millilandaflugi, 70 innanlands, tíu fraktflug og eitt leiguflug í vikunni. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins í tölvupósti til starfsmanna.

Í vikunni sem leið voru brottfarir í millilandaflugi 105 talsins, 63 innanlandsflug, 12 fraktflug og fjögur leiguflug. Brottförum í millilandaflugi mun fjölga um 24 prósent á milli vikna. Það var í fyrsta skipti sem Icelandair flaug yfir 100 flug í einni viku eftir 15 mánaða baráttu við heimsfaraldur.

„Eins og þið hafið eflaust tekið eftir undanfarnar vikur hefur verið jafn og góður upptaktur í millilandaflugi, auk þess sem innanlandsflugið hefur verið á góðri siglingu. Þetta hefur haft sýnileg áhrif á ferðaþjónustu í landinu. Ferðamönnum fjölgar og hefur það mjög jákvæð áhrif á íslenskan efnahag,“ sagði hann í tölvupóstinum.

Hann sagði að Icelandair hafi lofað síðasta sumar að halda öllum innviðum gangandi og vera tilbúin að setja flugið í gang um leið og eftirspurn tæki við sér. „Það er nákvæmlega það sem við erum að gera núna og við getum öll verið stolt af því að draga vagninn í að byggja íslenska ferðaþjónustu upp á ný, eins og sést vel á meðfylgjandi mynd af flugáætlunin á Keflavíkurflugvelli í morgun,“ sagði hann.