Í sögulegu samhengi þá er um að ræða fjórða fjölmennasta aprílmánuðinn frá því mælingar Ferðamálastofu hófust en brottfarir nú voru litlu fleiri en árið 2016. Þriðjungur brottfara var tilkominn vegna Bandaríkjamanna og Breta. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu.

Flestar brottfarir í apríl voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, tæplega 18 þúsund talsins eða 17,4 prósent. Bandaríkjamenn voru jafnframt fjölmennasta þjóðernið í apríl 2017 og 2018 eða um fjórðungur brottfara og í apríl 2019 eða ríflega fimmtungur brottfara.

Brottfarir Breta voru í öðru sæti, tæplega 16.200 talsins eða 15,7 prósent af heild. Bretar voru fjölmennasta þjóðernið í apríl á árunum 2002-2016. Þegar mest var eða í apríl 2017 mældust brottfarir Breta tæplega 28 þúsund.

Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti (10,8 prósent af heild) og brottfarir Frakka og Þjóðverja í því fjórða og fimmta (5,5 prósent hver um sig). Þar á eftir fylgdu Danir (4,8 prósent), Spánverjar (3,9 prósent), Ítalir (2,5 prósent), Hollendingar (2,4 prósent) og Kínverjar (2,2 prósent).

Brottfarir erlendra farþega frá áramótum

Frá áramótum hafa um 347 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra tæplega átján þúsund talsins. Brottfarir frá áramótum mælast hins vegar álíka margar og þær voru árið 2020 en þá var áhrifa kórónaveirufaraldusins farið að gæta. Enn er langt í land að ná þeim fjölda sem var fyrir faraldurinn en brottfarir erlendra farþega voru um 578 þúsund talsins á tímabilinu janúar til apríl 2019 eða 231 þúsund fleiri en í ár.

Brottfarir Íslendinga í apríl álíka margar og fyrir faraldur

Brottfarir Íslendinga í apríl voru um 58 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær tæplega þrjú þúsund. Brottfarir Íslendinga í apríl eru orðnar álíka margar og þær voru fyrir kórónaveirufaraldurinn en þær mældust tæplega 61 þúsund í apríl 2019. Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst tæplega 136 þúsund.