Brimgarðar högnuðust um 2,5 milljarða króna árið 2019 samanborið við 1,6 milljarða króna tap árið áður. Bætt afkoma skýrist meðal annars af því að bókfært virði fasteigna hækkaði um þrjá milljarða króna og afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum var jákvæð um 90 milljónir en árið áður var hún neikvæð um 1,6 milljarða króna.

Brimgarðar eru í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna. Fjölskyldan á heildverslunina Mata.

Við matsbreytingu fasteigna jókst eigið fé fjárfestingarfélagsins í 3,9 milljarða við árslok en það var 1,4 milljarðar árið 2018. Eiginfjárhlutfallið jókst í 30 prósent en var 14 prósent árið áður.

Eignir Brimgarða námu 13 milljörðum króna við árslok. Þar af lágu 5,2 milljarðar króna í fasteignum í rekstri félagsins. Brunabótamat sömu eigna nam 8,4 milljörðum króna. Brimgarðar eru stór hluthafi í fasteignafélögunum þremur sem skráð eru í kauphöll. Markaðsvirði hlutabréfanna var 4,5 milljarðar króna við árslok: hluturinn í Eik var metinn á 2,1 milljarð, hluturinn í Reitum var metinn á 1,2 milljarða og hluturinn í Regin var metinn á 1,1 milljarð króna.

Samkvæmt ársreikningi töpuðu Brimgarðar 831 milljón króna á framvirkum samningum með hlutabréf á árinu 2019. Árið áður nam það tap 838 milljónum króna. Eignir í hlutabréfaafleiðum námu 6,3 milljörðum króna og skuldir vegna þeirra námu 7,1 milljarði króna. Því nam tapið eins og fyrr segir 831 milljón króna. Skráð hlutabréf sem bókfærð voru á 4,3 milljarða króna voru veðsett til tryggingar framvirkum samningum.