Fjárfestingafélagið Brimgarðar, stærsti hluthafi Eikar fasteignafélags, er komið með 15 prósenta hlut í fasteignafélaginu eftir kaup á hlutabréfum og gerð framvirkra samninga.

Fram kemur í flöggun til Kauphallarinnar að Brimgarðar keyptu 11 milljónir hluta, jafnvirði tæplega 80 milljóna króna, í dag og juku þannig beinan eignarhlut sinn úr 12,7 prósentum í 13,2 prósent. Þá kemur einnig fram að Brimgarðar séu með framvirka samninga um kaup á 1,9 prósenta hlut, jafnvirði um 450 milljóna króna sem gilda til 3. júní og 10 júní.

Eins og greint var frá í Markaðinum fyrr í vikunni vilja Brimgarðar, sem eru í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, sjá endurnýjun í stjórn Eikar, sem er nær óbreytt frá árinu 2016, á næsta aðalfundi þess 10. júní.

Brimgarðar eru, samkvæmt heimildum Markaðarins, ósammála sjónarmiðum tilnefningarnefndar Eikar, sem hefur lagt til að stjórn félagsins verði óbreytt með vísun til mikilvægis stöðugleika í núverandi efnahagsaðstæðum, og vonast til að margfeldiskosning á fundinum auki líkur á endurnýjun stjórnar

Stjórn Eikar barst í byrjun vikunnar krafa frá Brimgörðum um að beitt yrði margfeldiskosningu við stjórnarkjörið, en fyrirkomulagið er til þess fallið að tryggja réttindi minnihlutans í hluthafahópi fyrirtækja.

Þar sem krafa Brimgarða um margfeldiskosningu var send innan tilskilins frests og barst frá hluthafa sem hefur yfir að ráða meira en 1/50 hluta hlutafjár, verður margfeldiskosningu beitt á aðalfundinum.

Brimgarðar hafa bætt verulega við eignarhlut sinn í Eik frá áramótum þegar hann nam 7,5 prósentum. Á sama tíma hefur fjárfestingafélagið minnkað við sig í Regin og Reitum. Þannig hefur eignarhlutur Brimgarða í Regin lækkað úr 2,77 prósentum niður í 1,89 prósent frá áramótum og í Reitum hefur hlutur félagsins lækkað úr 2,4 prósentum í 2,15 prósent.