Samkvæmt nýju verðmati er Brim 138 milljarða virði. Samkvæmt því ætti gengi hlutabréfa í Brim að vera 72 en lokagengi á markaði í gær var 101. Þetta kemur fram í verðmati frá Jakobsson Capital sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Horfur félagsins eru sagðar góðar. Árið 2022 mun hins vegar hafa áhrif að úthlutað aflamark í þorski verður nokkuð lægra en árið á undan. Staða aflaheimilda í þorski var tæplega 29 prósentum lægri í lok síðasta árs en í lok 2020. Staða aflaheimilda í botnfiski í heild var um 21 prósenti lægri í árslok 2021 en í lok árs 2020.

Á móti kemur að verðvísitala botnfiskafurða hefur hækkað um 18 prósent. Áhrif átakanna í Úkraínu eru ekki farin að koma í ljós en allt bendir samt til að verð sjávarafurða hækki samfara hærra matvælaverði.

: Jakobsson Capital gerir ráð fyrir að tekjur af botnfiski aukist um 5 prósent þrátt fyrir lægri aflaheimildir. Framlegð af uppsjávarveiðum var 48 prósent árið 2021 samanborið við 38,2 prósenta framlegð árið 2020. Meðalframlegðarhlutfall síðustu 10 ára hefur verið 36,5 prósent.

Fiskverð hefur hækkað samfellt undanfarin ár. Stríðið í Úkraínu veldur verðhækkunum sem koma Brimi og öðrum íslenskum útgerðarfyrirtækjum vel.

Miklar verðhækkanir á olíu vega upp á móti hækkunum á verði sjávarafurða og gerir Jakobsson Capital ráð fyrir óbreyttu framlegðarhlutfalli milli áranna 2021 og 2022. Á næsta ári er gert ráð fyrir lægra framlegðarhlutfalli.