Afkoma Brims á þriðja ársfjórðungi var lítillega yfir væntingum greinanda Jakobsson Capital. Samkvæmt nýju verðmati greiningarfyrirtækisins hækkar verðmatið á Brimi um 10 prósent og hljóðar upp á 509 milljónir evra en eldra verðmat hljóðaði upp á 462 milljónir evra. Markaðsgengi bréfanna er meira en 20 prósentum yfir verðmatsgenginu 42,5.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Brims nam 22,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2020 en nam 24,6 milljónum evra á sama tíma árið 2019. Greinandinn bendir á metafkomu á þriðja ársfjórðungi 2019.

„Ástæða lakari afkomu árið 2020 en árið 2019 útskýrist meðal annars af lægri verðum. Verðvísitala uppsjávarafurða hefur lækkað um 2 prósent í íslenskum krónum og 13 prósent í evrum og verð botnfiskafurða hefur staðið í stað í evrum skv. Hagstofu. Á móti kemur að mjög dró úr eftirspurn eftir ferskum fiski en eftirspurn eftir frosnum vörum hefur aukist mikið. Almennt er hærra verð á ferskum afurðum en frosnum,“ segir í verðmatinu.

Tekjur Brims námu 213,8 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 samanborið við 177,7 milljónir evra á sama tíma árið áður og jukust því um 20 prósent.

„Ástæða 20 prósenta tekjuvaxtar liggur í kaupum Brims á sölufélögum í Asíu sem urðu hluti af rekstri Brims á fjórða ársfjórðungi 2019. Tekjuvöxtur Brims kemur allur frá sölufélögum eða frá öðrum tekjum í ársreikningi,“ segir í verðmatinu.

Þá sýnist greinandanum að Brim hafi náð auknu hagræði í útflutningskostnaði með kaupunum, þótt framlegð sölufélaganna sé ekki ýkja há.

„Kaup á sölufélögum draga umtalsvert úr heildarframlegðarhlutfalli þar sem velta er mikil en framlegð lág. Rekstur sölufélaga er eðlisólíkur veiðum. Hagnaðartækifærin liggja í að ná aukinni veltu í gegnum sölufélögin og ná þannig kostnaðarhlutföllum niður.“