Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi Icelandair Group með enn skýrari áherslu á stefnu félagsins þegar kemur að sjálfbærum vexti, stafrænni umbreytingu og áherslu á upplifun viðskiptavina. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Skiptinga sölu og þjónustu í tvö svið

Sölu- og þjónustusviði verður skipt upp í tvö svið. Annars vegar er um að ræða svið sem leggur áherslu á upplifun viðskiptavina ásamt því að styrkja Icelandair vörumerkið enn frekar. Framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðsmála (e. Chief Customer Officer) mun leiða þetta svið. Hins vegar er um að ræða svið sem leggur áherslu á tekjumyndun félagsins og verður leitt af framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu (e. Chief Revenue Officer). Hið síðarnefnda mun sameina allar tekjudrifnar einingar félagsins, þ.e. stjórnun leiðakerfis, tekjustýringu og sölu.

Stafræn umbreyting

Svið stafrænnar þróunar mun setja enn meiri áherslu á stafræna umbreytingu félagsins og verður leitt af framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar (e. Chief Digital Officer). Þetta svið mun styðja við allar einingar félagsins í þeirri vegferð að stuðla að einföldu og ánægjulegu ferðalagi fyrir viðskiptavini Icelandair og leggja grunninn að bættri nýtingu gagna við ákvarðanatöku innan félagsins.

Sjálfbærni er einn af þeim þáttum sem er í forgrunni í langtímastefnu félagsins. Þetta svið verður styrkt enn frekar og staðsett á skrifstofu forstjóra ásamt stefnumótun félagsins. Framkvæmdastjórar Icelandair Cargo og Loftleiða-Icelandic verða áfram fulltrúar þessara dótturfélaga í framkvæmdastjórn. Starfsemi þessara félaga skapar mikilvæga virðisaukningu í flugrekstri félagsins með því að nýta tækifæri í fraktflutningum og leiguflugi. Þá eru þessi félög mikilvæg til að draga úr árstíðasveiflu í rekstri Icelandair Group.

Tómas Ingason ráðinn framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu

Tómas Ingason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu (e. Chief Revenue Officer). Tómas hefur verið framkvæmdalstjóri viðskiptaþróunar og stafrænnar umbreytingar síðan hann kom aftur til liðs við Icelandair á árinu 2019. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs WOW air á árunum 2018-2019 og forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 til 2018. Þá var hann framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá WOW air á árinu 2014. Fyrir þann tíma var hann ráðgjafi hjá Bain & Company í Kaupmannahöfn og starfaði sem forstöðumaður tekjustýringar og verðlagningar hjá Icelandair til margra ára. Tómas er með MBA gráðu frá MIT Sloan School of Management í Boston, MSc. gráðu í verkfræði með áherslu á aðfangakeðjur og flugfélög sem og BSc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Tómas Ingason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu.

Ráðningarferli framkvæmdastjóra þjónustu og markaðsmála og framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar hefst nú þegar.