Hagsjá Landsbankans fjallar í dag um samsetningu verðbólgunnar. Fram kemur að vísitala neysluverðs hækkaði um 0,45 prósent milli mánaða í desember og mælist verðbólgan 5,1 prósent samanborið við 4,8 prósent í nóvember. Fyrir ári mældist 3,6 prósenta verðbólga þannig að hún hefur hækkað um 1,5 prósentustig á einu ári. Veruleg breyting hefur orðið á samsetningu verðbólgunnar á árinu.

Mest áhrif til hækkunar í desember höfðu flugfargjöld til útlanda (+10,8 prósent milli mánaða, +0,14 prósenta áhrif á vísitöluna), matarkarfan (+0,7 prósent milli mánaða, +0,11 prósenta áhrif á vísitöluna) og reiknuð húsaleiga (+0,6 prósent milli mánaða, +0,10 prósenta áhrif).

Þetta var meiri hækkun milli mánaða en hagfræðideild Landsbankans hafði búist við, en hún hafði spáð 0,3 prósenta hækkun milli mánaða. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu mun meira en hagfræðingar Landsbankans áttu von á, matarkarfan hækkaði í stað þess að lækka og húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu.

Mjög hefur dregið úr verðbólgu á þessu ári, þegar húsnæðisliðurinn er tekinn frá.

3,3 prósenta verðbólga án húsnæðis

Vísitala neysluverðs án húsnæðis1 hækkaði um 0,37 prósent milli mánaða og mælist 3,3 prósent verðbólga á þann mælikvarða. Verðbólga án húsnæðis lækkaði nokkuð hratt í sumar, en hún sló hæst í 4,8 prósent í mars. Árstakturinn hækkaði aðeins nú, en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis hafði verið í kringum 3 prósent í þrjá mánuði (sept.-nóv.) samfleytt.

Gjörólík samsetning verðbólgunnar miðað við fyrir ári

Fyrir ári mældist 3,6 prósent verðbólga og hefur verðbólgan því aukist um 1,5 prósentustig á einu ári. Samsetning verðbólgunnar hefur gjörbreyst á þessum tólf mánuðum.

Á einu ári hefur samsetning verðbólgunnar gerbreyst.

Fyrir ári var framlag innfluttra vara án bensíns 2,0 prósentustig til hækkunar á ársverðbólgu en krónan veiktist nokkuð innan árs í fyrra. Núna er framlag innfluttra vara án bensíns einungis 0,3 prósentustig. Framlag innfluttra vara án bensíns er því 1,7 prósentustigi lægra nú en fyrir ári síðan.

Húsnæðisliðurinn hefur mikil áhrif

Á þessum tíma hefur framlag bensíns farið úr að vera 0,2 prósentustig til lækkunar í að vera 0,7 prósentustig til hækkunar - alls 0,9 prósentustiga breyting. Auk þess hefur framlag húsnæðis hækkað um 1,7 prósentustig (úr 0,6 prósentustigum í 2,3 prósentustig) og framlag þjónustu hækkað um 0,8 prósentustig (úr 0,4 prósentustigum í 1,2 prósentustig).

Á nýju ári stefnir í að vaxtahækkanir Seðlabankans leiði til hækkunar á reiknaðri húsaleigu.

Árshækkun kostnaðar við að búa í eigin húsnæði 13,3 prósent

Kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,6 prósent milli mánaða. Þar af hækkaði markaðsverð húsnæðis, eins og Hagstofan notar það í útreikningum sínum, um 0,7 prósent milli mánaða. Þetta er minnsta hækkun milli mánaða síðan í febrúar á þessu ári, en síðustu fjóra mánuðina (ágú.-nóv.) hækkaði markaðsverð húsnæðis um meira en 1 prósent milli mánaða.

Framlag vaxtabreytinga var 0,1 prósentustig til lækkunar á reiknaðri húsaleigu milli mánaða, en sú tala var um 0,5 prósentustig í byrjun árs. Búast má við að framlag vaxtabreytinga til lækkunar haldi áfram að fjara út og breytist í hækkun þegar fram líður, í kjölfar hækkunar á vöxtum íbúðalána.

Undanfarna tólf mánuði hefur reiknuð húsaleiga hækkað um 13,3 prósent, en þar af er hækkun markaðsverðs húsnæðis 15,9 prósent og framlag vaxtabreytinga er 2,5 prósentustig til lækkunar.

Mjólkurvörur leiða verðhækkanir á matvælum.

Matarkarfan hækkaði vegna hækkana á mjólkurvörum

Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,7 prósent milli mánaða og voru áhrif þess 0,11 prósentustig til hækkunar á vísitölunni í heild. Þar af skýrir hækkun á mjólkurvörum 0,09 prósentustig, en nýr verðlagsgrundvöllur frá verðlagsnefnd búvara tók gildi 1. desember.

Þrátt fyrir þetta er árshækkun á mat og drykk í vísitölunni nokkuð minni en árshækkun vísitölunnar í heild, eða 2,8 prósent.

Flugfargjöld hafa hækkað á þessu ári og tóku kipp í desember.

Flugfargjöld til útlanda tóku kipp

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 10,8 prósent milli mánaða og var um 15 prósent dýrara að fljúga til útlanda í desember 2021 en í desember 2020. Þetta er svipuð hækkun milli mánaða og í desember 2019, áður en heimsfaraldurinn skall á, en í desember 2020 hækkaði þessi liður um 2 prósent milli mánaða.

Hagstofan hélt þessum lið nokkurn veginn óbreyttum stóran hluta ársins 2020 og fyrstu mánuði 2021 á meðan áætlunarflug til og frá landinu lá að mestu leyti niðri.

Húsgögn og heimilisbúnaður

Að lokum lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um 3 prósent milli mánaða og var framlag þess til breytinga á vísitölunni í heild -0,07 prósentustig.