Stjórnendur Íslandsbanka telja að fjölbreyttur mannauður sé mikilvægur og hafi jákvæð áhrif á afkomu og verðmætasköpun. Ákveðin breyting á fyrirtækjamenningu þurfi að eiga sér stað sem tryggi þátttöku ólíkra þjóðfélags hópa. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Markaðarins um aukningu í því að íslensk fyrirtæki taki afstöðu til samfélagsmála.

Ákvörðun Íslandsbanka um að horfa í auknum mæli til kynjahlutfalla hjá þeim fyrirtækjum sem bankinn á í viðskiptum við er hluti af stefnu bankans um sjálfbæra þróun sem snýst um að mæta kröfum nútímans án þess að skerða hlut framtíðarkynslóða. Gunnar Sveinn Magnússon, sérfræðingur í sjálfbærri þróun hjá Íslandsbanka, segir rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrirtæki sem huga að sjálfbærni bæta reksturinn og arðsemina hjá sér og tryggja þannig betur langtíma rekstrargrundvöll sinn.

„Það er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að við erum að setja áherslu á sjálfbærni í okkar eigin rekstri út frá alþjóðlegum viðmiðum um umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti, svokölluð UFS-viðmið, ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Við viljum jafnframt eiga gott samtal og samstarf við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar um þessi mál. Auðvitað eru ólíkar forsendur fyrir mismunandi aðila, til að mynda er erfitt fyrir lítil fyrirtæki að ráðast í viðamiklar aðgerðir einn, tveir og þrír. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er langtímaverkefni hvort sem það er hjá okkur í Íslandsbanka eða hjá minni fyrirtækjum en það er samt mikilvægt fyrir alla að hefja þessa vegferð,“ segir Gunnar Sveinn.

„Það vantar til dæmis töluvert upp á að fleiri konur séu í æðstu stjórnendastöðum í íslenskum fyrirtækjum.“

Tekur Íslandsbanki þá afstöðu með því að jafnari kynjahlutföll séu æskileg?

„Já, engin spurning um að þetta sé þróun sem við teljum vera æskilega í samfélaginu og í viðskiptalífinu og það endurspeglast í raun hjá flestum sem við ræðum við í dag. Þótt Ísland hafi náð langt á mörgum sviðum kynjajafnréttis þá getum við alltaf gert betur. Það vantar til dæmis töluvert upp á að fleiri konur séu í æðstu stjórnendastöðum í íslenskum fyrirtækjum,“ segir Gunnar Sveinn en bætir við að það sem hafi vantað í umræðuna sé að þetta nái út fyrir kyn.

„Við teljum að fjölbreyttur mannauður sé mikilvægur, hvort sem það er hjá fjölmiðlum, fyrirtækjum, bönkum eða opinberum stofnunum því slíkt hefur almennt jákvæð áhrif á afkomuna og verðmætasköpun. Á ensku er það kallað „diversity and inclusion“ sem þýðir að við verðum að huga að mörgum mismunandi þjóðfélagshópum út frá fjölbreytileika og tryggja þátttöku ólíkra hópa. Það er ákveðin breyting á fyrirtækjamenningu sem þarf að eiga sér stað. Við erum sjálf að vinna í þessum málum og erum ekki fullkomin frekar en aðrir en við erum reiðubúin að taka umræðuna og gera nauðsynlegar breytingar til að bæta okkur og stöðuna almennt,“ segir Gunnar Sveinn.

Opnar dyr fyrir bankann

Spurður um viðbrögðin við stefnu Íslandsbanka er varðar kynjahlutföll segir Gunnar Sveinn að þau hafi verið sterkari en stjórnendur bankans áttu von á. Aftur á móti hafi verið mikilvægt að byrja ferlið og umræðan hafi verið gagnleg. Þá hafi viðbrögðin verið góð áminning um að útskýra málin vel og fara yfir þau í samráði við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Gunnar Sveinn Magnússon, sérfræðingur í sjálfbærri þróun hjá Íslandsbanka.

Áhersla Íslandsbanka á sjálfbæra þróun getur skapað tækifæri og opnað dyr að mati Gunnars Sveins. Hann starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2015 þegar heimsmarkmiðin voru kynnt. Til að byrja með voru sett ákveðin spurningarmerki um aðkomu sjóðsins, um hvort og hvernig sjóðurinn gæti komið að þessu en á endanum var tekin ákvörðun um að innleiða og styðja við markmiðin.

„Við sáum strax árangur. Það opnuðust fleiri dyr fyrir okkur í starfseminni svo sem í samtalinu við stjórnvöld, það var auðveldara að sækja fjármagn fyrir verkefni og sjóðurinn varð meira í umræðunni á alþjóðavettvangi fyrir vikið. Ég sé alveg fyrir mér sambærilega þróun hérna á Íslandi þar sem fyrirtæki sem sinna þessu vel munu uppskera, hvort sem það er í formi hagstæðrar fjármögnunar, nýrra viðskiptatækifæra, lægri áhættu eða meiri nýsköpunar,“ segir Gunnar Sveinn.