Stjórn Kviku samþykkti í morgun tillögu forstjóra um breytt skipurit. Markmið breytinganna er að gera félagið betur í stakk búið til þess að halda áfram að ná árangri í rekstri. Skipulagið er aðlagað að stækkandi félagi sem er leiðandi í að halda áfram að auka samkeppni og nýsköpun á fjármálamarkaði. Jafnframt eru breytingarnar í samræmi við markmið og áherslur í stefnumótun sem kynnt var í nóvember 2021.

Kvika banki er í örum vexti og fer starfsemi bankans nú fram undir mörgum vörumerkjum. Helstu vörumerkin eru auk Kviku, TM, Kvika eignastýring, Lykill, Auður, Netgíró, Aur og Ortus Secured Finance. Starfsemi nýs dótturfélags á sviði greiðslumiðlunar er jafnframt í undirbúningi.

Frá sameiningu Kviku banka, TM og Lykils hafa stjórnendur og starfsfólk samstæðunnar unnið að því að ná fjárhagslegum markmiðum sem sett voru við samrunann. Það er mat stjórnenda að fjárhagslegum markmiðum hafi verið náð á skemmri tíma en áætlað var.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, mun taka við stöðu aðstoðarforstjóra Kviku banka af Ármanni Þorvaldssyni sem mun einbeita sér að uppbyggingu á starfsemi Kviku í Bretlandi. Ármann mun halda áfram sem stjórnarformaður í dótturfélögum bankans í Bretlandi ásamt því að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Kviku. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securites, mun koma nýr inn í framkvæmdastjórn samstæðu Kviku.

Eiríkur Magnús Jensson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Kviku. Eiríkur hefur starfað í Arion banka og forverum hans frá árinu 1988, lengst af við fjármögnun bankans. Undanfarin ár hefur hann verið forstöðumaður fjárstýringar.

Nýtt tekjusvið

Hluti viðskiptabankasviðs og fjárfestingabankasvið mun mynda nýtt tekjusvið, fyrirtæki og markaðir. Nýtt tekjusvið mun skerpa á sérstöðu Kviku í þjónustu við fyrirtæki og fjárfesta og auðvelda félaginu að nýta aukinn fjárhagslegan styrk til bættrar þjónustu við viðskiptavini. Áætlað er að sviðið taki til starfa þann 1. janúar nk.

Eftir breytingarnar verða tvö tekjusvið rekin í Kviku banka, viðskiptabanki annars vegar og fyrirtæki og markaðir hins vegar. Því til viðbótar eru þrjú tekjusvið rekin í dótturfélögum: TM, Kvika eignastýring og Kvika Securites í Bretlandi.

Framkvæmdastjóri fyrirtækja og markaða verður Bjarni Eyvinds Þrastarson, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs. Sviðið verður samsett úr fjórum deildum: Verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og fyrirtækjalán. Aðstoðarframkvæmdastjóri sviðsins og forstöðumaður fyrirtækjalána verður Magnús Guðmundsson, sem hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs. Vilhjálmur Vilhjálmsson verður áfram forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar. Erlendur Davíðsson hefur verið ráðinn í stöðu forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar. Erlendur hefur yfirgripsmikla reynslu á fjármálamarkaði sem nær aftur til ársins 2005. Síðustu ár starfaði hann sjálfstætt við fyrirtækjaráðgjöf og þar á undan m.a. sem sjóðstjóri og forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá forvera Kviku eignastýringar og í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Ragnar Páll Dyer, fjármálastjóri Kviku, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Ragnar mun áfram sitja í stjórnum TM og Kviku Securities í London.

Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, mun láta af störfum á næstu vikum og hyggst hann hefja eigin rekstur. Gengið hefur verið frá viljayfirlýsingu þess efnis að Kvika komi að þeim rekstri.