Frumvarp um breytingar á raforkulögum mun líklega birtast í samráðsgátt stjórnvalda á næstu vikum, en þar verða meðal annars lagðar til breytingar á tekjumörkum og gjaldskrármálum Landsnets. Á þingmálaskrá kemur fram að frumvarpi þessa efnis verði dreift til þingmanna í næsta mánuði. Tekjumörk Landsnets eru ákvörðuð með lögum, en veigamikill þáttur við gjaldskrá Landsvirkjunar. Veginn fjármagnskostnaður Landsnets, sem er metinn einu sinni á ári af sérstakri nefnd Orkustofnunar, er af mörgum sagður of hár sem orsaki það að gjaldskrá Landsnets sé með þeim hætti að hún grafi undan samkeppnishæfni íslensks orkumarkaðar.

Greint hefur verið frá því að hinn metni, vegni fjármagnskostnaður Landsnets endurspegli ekki raunverulegan fjármagnskostnað fyrirtækisins. Það er ekki síst vegna þeirra breyta sem lagðar eru til grundvallar. Einkum hefur notkun 10 ára hlaupandi meðaltals skuldatryggingaálags íslenska ríkisins verið gagnrýnd, en skuldatryggingaálag Íslands var enn þá í hæstu hæðum á fyrri hluta undanliðins áratugar þar sem mál á borð við Icesave-deiluna höfðu ekki enn verið leidd til lykta.

Einnig hefur verið bent á að skuldatryggingaálag Íslands kunni að hækka nú, þar sem ferðaþjónustan – ein af þremur stoðum íslensks útflutnings – hefur nú í meginatriðum horfið af sjónarsviðinu. Því skjóti skökku við að veiking einnar þriggja stoða útflutnings geti þannig óbeint grafið undan annarri af hinum tveimur sem eftir standa með hækkun gjaldskrár Landsnets.

Á samráðsfundi Orkustofnunar með hagsmunaaðilum fyrr á þessu ári voru hins vegar lagðar til breytingar á útreikningi á vegnum fjármagnskostnaði Landsnets á næsta ári. Ásamt breytingu um metna fjármagnsskipan Landsnets verður skuldatryggingaálag bandaríska ríkisins dregið frá álaginu á íslenska ríkið. Markaðsálag Landsnets hækkar hins vegar á móti og er það útskýrt með seljanleikaáhættu bréfa fyrirtækisins, sem segja má að sé athyglisverð forsenda, enda um að ræða fyrirtæki með náttúrulega einokun á flutningi raforku á Íslandi.

Heildaráhrifin eru þau að veginn fjármagnskostnaður Landsnets fyrir árið 2021, að raunvirði fyrir skatta, verður metinn 5,77 prósent. Án breytinganna sem gerðar voru á útreikningnum hefði fjármagnskostnaðurinn verið metinn 5,93 prósent. Að óbreyttu er því ekki mikilla breytinga að vænta á tekjumörkum Landsnets á næsta ári.

Forsvarsmenn Landsnets hafa réttilega bent á það að ákvörðun gjaldskrár, tekjumarka og metins fjármagnskostnaðar fyrirtækisins liggi ekki hjá þeim sjálfum. Þeir hafa einnig sagt að metinn fjármagnskostnaður sé að sama skapi sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndunum.

Sé litið til nágrannalandanna kemur hins vegar annað í ljós. Veginn fjármagnskostnaður hins norska Statnett að raunvirði fyrir skatta var þannig metinn 3,3 prósent á síðasta ári af norsku orkustofnuninni (Norges vassdrags- og energidirektorat). Sé litið til Svíþjóðar var veginn fjármagnskostnaður Vattenfall Eldistribution, eins helsta flutningsaðila raforku þar í landi, metinn 2,35 prósent af orkustofnun Svíþjóðar (Energimarknadsinspektionen).

Bent hefur verið á að arðsemi eiginfjár Landsnets gefi það til kynna að tekjur félagsins séu undir eðlilegum mörkum. Meðalarðsemi eiginfjár hins norska Statnett hefur þannig verið um níu prósent að meðaltali síðastliðin fimm ár, samanborið við sex prósent hjá Landsneti.

Við þennan samanburð ber þó að hafa í huga að meðaleiginfjárhlutfall Statnett á sama tímabili var 25 prósent, á meðan það var 42 prósent hjá Landsneti. Eðli máls samkvæmt eykst þannig arðsemi eiginfjár með lækkandi eigin fé, að því gefnu að tekjur haldist nokkuð stöðugar sem er jafnan tilfellið hjá fyrirtækjum sem reka innviði.

Öllu samanburðarhæfari stærð, sem endurspeglar mismuninn í metnum, vegnum fjármagnskostnaði, er hagnaður fyrir skatta og vaxtakostnað (EBIT) sem hlutfall af heildareignum. EBIT sem hlutfall af heildareignum hefur verið að meðaltali 3,3 prósent síðastliðin fimm ár hjá hinu norska Statnett, en sama hlutfall á sama tímabili stendur í 6,8 prósentum hjá Landsneti. Á þennan mælikvarða, sem leiðréttir fyrir misjöfnu eiginfjárhlutfalli, er arðsemi Landsnets því meira en tvöföld á við Statnett.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar í febrúar í fyrra að ríkisstjórnin hefði samþykkt að taka upp viðræður um kaup á eignarhlut Landsvirkjunar í Landsneti.
Fréttablaðið/Anton Brink

Starfshópur um kaup ríkissjóðs á Landsneti skilar brátt af sér


Fyrir stofnun Landsnets var flutningur raforku að mestu í höndum Landsvirkjunar, en evrópskar reglur um aðskilnað framleiðslu og flutnings raforku kallaði á stofnun fyrirtækisins árið 2005.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, var einna fyrstur til að vekja athygli á þeirri óheppilegu stöðu að framleiðendur rafmagns væru eigendur flutningskerfis raforku í fyrirspurnatíma á Alþingi árið 2007. Hins vegar gerðist lítið í eignarhaldsmálum Landsnets fyrr en í desember 2018 þegar ríkisstjórnin samþykkti að taka upp viðræður um að ríkið keypti Landsnet af núverandi eigendum, sem eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Á ríkisstjórnarfundi í febrúar 2019 var síðan samþykkt að koma á starfshópi til að leiða viðræður um kaup ríkisins á Landsneti. Vinnu starfshópsins átti að ljúka fyrir árslok 2019. Engin niðurstaða hefur hins vegar fengist frá starfshópnum enn.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu orku, iðnaðar og viðskipta, sem starfar innan atvinnuvegaráðuneytisins, er nú áætlað að vinnu starfshópsins ljúki á fyrri hluta næsta árs. Í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins frá árinu 2019 var virði Landsnets áætlað á bilinu 80 til 85 milljarðar. Ekki liggur fyrir hvort tillögur starfshópsins muni taka á fjármögnun ríkisins vegna hugsanlegra kaupa á Landsneti, en halli á rekstri ríkisins á þessu og næsta ári er áætlaður um 600 milljarðar króna samanlagt.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Sala á Landsneti myndi ekki auka arðsemi Landsvirkjunar


Bent hefur verið á að sala Landsvirkjunar á tæplega 65 prósenta hlut sínum í Landsneti myndi hugsanlega auðvelda Landsvirkjun að uppfylla arðsemismarkmið sín. Þannig myndi lægra eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar með brotthvarfi eignarhlutsins í Landsneti af efnahagsreikningi Landsvirkjunar hækka ávöxtun á eigið fé. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að eignarhluturinn í Landsneti sé 15-20 prósent af heildareignum Landsvirkjunar. „Arðsemi Landsnets er hins vegar mun hærri en Landsvirkjunar.

Tekjutapið eftir sölu á eignarhlut okkar í Landsneti myndi því vega upp á móti að mestu leyti tekjur af sölunni,“ segir Hörður, sem segist styðja að ríkissjóður kaupi Landsnet. Hann nefnir einnig að minnisblað Summu um arðsemi Landsnets hafi verið unnið í tengslum við hugsanleg kaup ríkissjóðs á Landsneti, vegna hás verðmats á eignarhlut Landsvirkjunar í Landsneti sem erlendir ráðgjafar unnu fyrir Landsvirkjun. Hörður bætir því við að Landsneti hafi verið kynnt umrætt minnisblað áður en það var sent Orkustofnun.