Stjórn Skeljungs ákvað í dag að breyta skipuriti félagsins, að tillögu forstjóra. Helstu breytingarnar eru þær að sölusviði fyrirtækisins hefur verið skipt upp í tvö svið, fyrirtækjasvið og einstaklingssvið. Samhliða hefur Ólafur Þór Jóhannesson verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Þórður Guðjónsson mun áfram leiða fyrirtækjasviðið en Árni Pétur Jónsson, forstjóri, mun leiða einstaklingssvið Skeljungs. Þá mun Gróa Björg Baldvinsdóttir, yfirlögfræðingur Skeljungs, taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Már Erlingsson mun áfram stýra rekstrarsviði auk þess að gegna hlutverki aðstoðarforstjóra Skeljungs hf.

Fjármálasvið mun verða leitt af Ólafi Þór Jóhannessyni, sem hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri þess sviðs. Undir það svið mun heyra mannauðs- og skrifstofumál, upplýsingatækni og bókhald. Ekki verður lengur starfrækt sérstakt skrifstofu- og samskiptasvið og færast markaðsmál til einstaklingssviðs, sem líkt og áður sagði er stýrt af forstjóra félagsins.

Ólafur hefur verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi síðan 2018 og auk þess að sinna stjórnarstörfum í nokkrum félögum. Áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs og staðgengils forstjóra Basko ehf. eða frá 2012-2018. Þá var Ólafur framkvæmdastjóri Miðengis ehf., eignarhaldsfélags í eigu Íslandsbanka, frá 2010-2012. Á árunum 2006-2010 gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs Teymis hf. sem var skráð félag í Kauphöll Íslands.

Á árunum 1996-2006 starfaði Ólafur á endurskoðunarsviði PricewaterhouseCoopers og varð síðar eigandi. Auk þess sinnti hann kennslu í Háskólanum í Reykjavík við viðskiptadeild háskólans og starfaði fyrir prófnefnd löggiltra endurskoðenda. Ólafur er með Cand.oecon próf í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands og er löggiltur endurskoðandi.