Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands og skoska geimferðafyrirtækið Skyrora kynntu í dag áform sín um að skjóta á loft gervihnetti frá Íslandi. Fyrirtækið mun standa fyrir þremur smærri tilraunaskotum frá Íslandi innan tólf mánaða. Gangi allt samkvæmt áætlun verður þetta fyrsta sinn sem gervihnetti er skotið á loft frá Íslandi.

Fulltrúar fyrirtækisins eru hér á landi að kanna möguleika á að skjóta eldflaugum frá Norðurausturlandi en helsti staðurinn sem kemur til greina er Langanes.

Þá myndi Skyrora skjóta upp eldflaug norður á bóginn. Þeir hlutar sem skipta sér frá eldflauginni (e. 1st & 2nd stage separation) myndu þá lenda í alþjóðlegu hafi. Fyrirtækið myndi svo sækja bútana eftir lendingu svo ekkert brak yrði eftir í hafinu.

Skyrora segir að staðsetning Íslands geri landið ákjósanlegt svo koma megi gervitunglum á sporbaug.

Fyrirtækið fjármagnar verkefnið sjálft en það er Volodymyr Levykin sem er helsti fjármagnari fyrirtækisins en hann er einnig framkvæmdastjóri.

Fulltrúar Norðausturkjördæmis á fundinum að kynna sér áform Skyrora.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skapa störf fyrir Íslendinga á Norðausturlandi

Fyrirtækið mun standa fyrir þremur eldflaugaskotum og vilja starfa með Íslendingum í uppbyggingu í kringum verkefnin og skapa allt að 30 til 40 ný störf. Meðal annars þarf að byggja grunn að skotpalli úr steypu áður en hægt verður að skjóta flaug á loft.

Gangi allt samkvæmt áætlun mun fyrirtækið skjóta á loft gervihnetti með fjórðu eldflaug sinni. Ekki liggur fyrir hvers konar gervihnött um ræðir en mörg fyrirtæki hafa sýnt áhuga og hefur fyrirtækið um 15 til að velja úr.

Að sögn Owain Hughes, viðskiptastjóra hjá Skyrora, eru einungis um 35 prósent af gervihnattaverkefnum sem verða að veruleika vegna þess hve langan tíma það tekur að þróa eldflaugar. Því er mikill markaður fyrir fyrirtæki á borð við Skyrora sem sérhæfir sig í smíðum og skotum á eldflaugum fyrir gervihnetti.

Aðspurður hvort hægt sé að finna eldflaugasérfræðinga á Íslandi, bendir Owain á að fyrrverandi hermenn hafi oft tekið þátt í að byggja edlflaugar í Bretlandi og gætu meðlimir Landhelgisgæslu Íslands lært að smíða eldflaugar.

Volodymyr Levykin fjármagnari og framkvæmdastjóri Skyrora.
Fréttablaðið/Getty images
Eldflaugar Skyrora. Enn á eftir að byggja stærstu flaugina, Skyrora XL.
Mynd/Skyrora

Hrein orka og þrívíddarprentaðar vélar

Skyrora leggur mikla áherslu á umhverfismál og hafa meðal annars þróað tækni til að umbreyta plasti í eldsneyti. Þá er ekki nauðsynlegt að flytja inn eldsneyti til Íslands til að skjóta upp eldflauginni.

„Við höfum heyrt af plast-vandanum hér á Íslandi. Mér skilst að þið sendið allt ykkar plast til Svíþjóðar. Við gætum nýtt mikið af því plasti og umbreytt því í eldsneyti fyrir flaugarnar okkar,“ sagði Robin Hague, yfirverkfræðingur Skyrora, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir markmið þeirra sé að þróa eldflaugar þar sem kolefnisfótsporið er í lágmarki.

Engin reykur kemur frá vélum þeirra vegna eldsneytisblöndunnar sem samanstendur af vetni, súrefni, vatni og koltvísýringi. Á þriðji stigi geimskotsins er notast við vetnisperoxíð og steinolíu til að keyra vélina áfram.

Skyrora er með tvær tegundir af eldflaugum; þrjár af týpunni sub-orbital, sem ná því ekki í sporbraut, og einnig svokallaða SKYHY eldflaug sem kemst í 90 km hæð, sem Bandaríkjamenn skilgreina sem geiminn þrátt fyrir Geimvísindastofnun Evrópu geri það ekki.

SKYHY mun nota vetnisperoxíð sem eldsneyti og Skylark L mun nota vetnisperoxíð og steinolíu, unna úr plasti.

Atli Þór Fanndal, ráðgjafi Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar, segir að mikil starfsemi í kringum geimvísindi og tækni eigi sér stað hérlendis en flestir viðskiptavinirnir væru erlendir.

Árið 2016 samþykkti Alþingi að kanna möguleika á að Ísland gerist aðili að Geimvísindstofnun Evrópu (ESA). Líklegast mun Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra leiða þær viðræður og sækja formlega um aðild að ESA.