Ferðamenn frá Bretlandseyjum staldra styst við á landinu þega þeir ferðast til Íslands eða að meðaltali um 4,6 nætur. Meðallengd dvalar ferðamanna óháð þjóðerni er 6,3 nætur samkvæmt nýrri könnun Ferða­mála­stofu á upp­lifun og ferða­hegðun er­lendra ferða­manna fyrir árið 2018.

Bretar fara minnst út fyrir höfuðborgina

Svarendur frá Bretlandseyjum ferðuðust minnst utan höfuðborgarsvæðis í samanburði við önnur markaðssvæði. Suður- og Mið-Evrópubúar og Asíubúar ferðuðust hins vegar í langflestum tilfellum hlutfallslega meira til landshluta utan höfuðborgarsvæðisins en önnur markaðssvæði. En 92,3% ferðamanna heimsóttu höfuðborgarsvæðið á einhverjum tímapunkti 2018. Af þeim gistu 92,5% á höfuðborgarsvæðinu. Gistinætur voru að jafnaði 2,9 talsins.

Engum þarf að koma á óvart að af þeim sem komu á Suðurlandið sem er heimsóttu flestir Gullfoss eða 86% og Geysi eða 82%. Næst vinsælustu áfangastaðirnir voru Skógafoss en 74% heimsóttu hann og Jökulsárlón, 52%.

Kynnast Íslandi í gegnum myndefni

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu er afar mismunandi eftir þjóðernum hvaðan ferðamenn fá hugmyndina að því að ferðast til landsins. Hátt hlutfall Asíubúa svaraði því að íslenskt landslag í hreyfimyndefni, kvikmyndum, auglýsingum og tónlistarmyndböndum hefði haft áhrif á ákvörðunina um að koma til landsins eða 60,9%. Pólverjar ráðfærðu sig mest allra þjóðerna við vini og vandamenn við undirbúning ferðar, eða 53% svarenda.

Gott ferðatilboð eða lágt flugfargjald hafði mun meiri áhrif á Norður-Ameríkana, 60%, en önnur markaðssvæði og hið sama má segja um möguleikann á svokölluðu stop-over á Íslandi eða 33,9%.

Umfjöllun um Ísland í sjónvarpi og útvarpi hafði meiri áhrif á Mið- og Suður-Evrópubúa, alls 68%, en önnur markaðssvæði. Norðurlandabúar segja fyrra ferðalag, 32,6%, og vini og ættingja á Íslandi, 29,1%, hafa mikil áhrif þega Ísland er valið.

Norðurljósin virðast laða Breta og Asíubúa að landinu í meira mæli en önnur markaðssvæði, 51% Breta og 50,7% Asíubúa. Þjóðverjar segja í 56,7 % tilvika ósnortna náttúru og hreinleika landssins ástæðu þess að þeir ferðast til Íslands, mest allra þjóðerna.