Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino’s á Íslandi, og Steinar Bragi Sigurðsson hafa ákveðið að nýta sölurétt sinn á 4,7 prósenta hlut sínum í Pizza-Pizza, sem á og rekur Domino’s á Íslandi, til breska móðurfélagsins Dom­in­o's Pizza Group.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi breska félagsins sem var birtur í dag. Bretarnir munu þannig kaupa hlutinn á 2,5 milljónir punda og eignast þar með íslenska félagið að öllu leyti.

Dom­in­o's Pizza Group keypti upphaflega 51 prósent í Dom­in­o's á Íslandi haustið 2016 og fylgdi með í kaup­un­um rétt­ur til að eign­ast fyr­ir­tækið í heild sinni. Undir lok árs 2017 keypti breska félagið síðan 44,3 prósenta hlut og átti þá 95,3 prósent í fyr­ir­tæk­inu á móti Birgi Erni og Steinari Braga sem hafa nú selt hlut sinn.

Birgir Örn var í ýtarlegu viðtalið við Markaðinn í vor þar sem hann fór yfir reksturinn og framtíðarhorfurnar.

„Það var ekki hægt að sjá það fyrir, að okkur myndi takast að auka tekjurnar úr 1,7 milljörðum króna frá því við keyptum fyrirtækið, í nærri sex milljarða króna á síðasta ári. Við erum stolt af því að hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir, það er EBITDA, jókst á sama tíma úr 70 milljónum króna í um 750 milljónir króna. Pitsustaðirnir voru 14 árið 2011 en á 25 ára afmælinu í fyrra voru þeir 25,“ sagði Birgir Örn.