Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, er sagður skoða það að frysta laun opinberra starfsmanna á næsta ári til að rétta við ríkisreksturinn. Heilbrigðisstarfsmenn eru sagðir undanskyldir launafrystingunni. Ríkisfjármál Bretlands eru nú rekin í miklum halla líkt og víðast hvar vegna áhrifa faraldursins.

Lántökur ríkissjóðs Bretlands náðu sögulegu hámarki í október síðastliðnum og leitar fjármálaráðherrann nú allra leiða til að koma jafnvægi á rekstur hins opinbera, að því er BBC greinir frá.

Sunak bendir á að tekjur opinberra starfsmanna ættu að fylgja einkamarkaði, en þar hefur orðið mikill tekjusamdráttur og aukning í atvinnuleysi.

Launafrysting opinberra starfsmanna er talin munu geta sparað breska ríkinu 23 milljarða punda á þriggja ára tímabili, eða sem nemur um 4140 milljörðum íslenskra króna. 15 milljarðar punda myndu sparast ef starfsmenn í heilbrigðisþjónustu yrðu undanskildir í þessum hugsanlegu aðgerðum.