Ríkis­stjórn Bret­lands er reiðu­búin til þess að fljúga breskum ferða­löngum aftur til síns heima fari svo að ferða­þjónustu­fyrir­tækið Thomas Cook fari á hausinn í dag. Þetta kemur fram á vef BBC en miðillinn ræddi við Dominic Raab, utan­ríkis­ráð­herra Breta.

Eins og fram hefur komið hefur ferða­þjónustu­risinn staðið höllum fæti að undan­förnu. Í dag mun að öllum líkindum bera til tíðinda þegar lána­drottnar fyrir­tækisins munu hitta stærstu hlut­hafa þess á sann­kölluðum neyðar­fundi. Vonast er til að hægt verði að ná sam­komu­lagi um fram­tíð fyrir­tækisins, ellegar verði það gjald­þrota.

Í sam­tali við BBC tekur Raab fram að hann vilji ekki grafa undan samnings­stöðu hlut­hafa fyrir­tækisins gegn lána­drottnum þess. Fyrir­tækið þarf á 200 milljóna punda inn­spýtingu eigi það ekki að falla.

Raab stað­festir að bresk stjórn­völd hafi lagt drög að á­ætlunum til að­stoðar far­þega, en gerði lítið úr mögu­leikanum á því að bresk stjórn­völd hlaupi undir bagga með fyrir­tækinu.

Nú þegar hafa fregnir borist af því að breskir ferða­langar sem ferðast hafa með fyrir­tækinu hafi lent í vand­ræðum á hótelum sínum, meðal annars í Túnis. Í frétt breska götu­blaðsins Metro er því ein­fald­lega slegið upp að ferða­menn „séu haldnir í gíslingu“ hótelanna þar til breski ferða­þjónustu­risinn greiði reikninga sína.

Ryan Far­mer frá Leicester­skíri segir í sam­tali við BBC að hótelið sitt hafi krafist þess að allir gestir sem ætluðu sér að fara yrðu að greiða auka­gjöld, sem hann segir aug­ljós­lega mega rekja til Thomas Cook. Öryggis­verðir hafi neitað fólki um að yfir­gefa hótelið þar til gjaldið yrði greitt.

„Myndi lýsa þessu ná­kvæm­lega eins og að vera gísl.“