Bretinn John Shrimpton, annar af stofnendum asíska vogunarsjóðsins Dragon Capital, hefur keypt í Icelandair Group í eigin nafni fyrir liðlega 200 milljónir króna að markaðsvirði.
Samkvæmt uppfærðum lista yfir alla hluthafa flugfélagsins í dag, að því er heimildir Markaðarins herma, er hann skráður fyrir 150 milljónum hluta að nafnverði, eða um 0,53 prósenta eignarhlut, en gengi bréfa Icelandair stendur nú í 1,41 krónum á hlut.
Það gerir Shrimpton að stærsta erlenda fjárfestinum í hluthafahópi félagsins en bandaríski fjárfesetingasjóðurinn Par Capital, sem var um tíma stærsti hluthafi Icelandair, seldi allan 1,5 prósenta hlut sinn um miðjan síðasta mánuð.
Shrimpton kom að stofnun Dragon Capital, sem er með höfuðstöðvar í Víetnam, um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, en hann lét af störfum þar árið 2010. Sjóðurinn er í dag með eignir í stýringu að andvirði um 3 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 400 milljarða íslenskra króna.
Eftir því Markaðurinn kemst næst fjárfestir Shrimpton í dag í eigin reikningi, einkum á vaxtamörkuðum (e. frontier markets), en kaup hans í Icelandair fóru fram fyrir nokkrum dögum. Það var Íslandsbanki sem hafði umsjón með viðskiptunum.

Icelandair Group sótti sér sem kunnugt er samtals 23 milljarða króna í almennu hlutafjárútboði sem fór fram um miðjan september en útboðsgengið var ein króna á hlut. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa félagsins hækkað um liðlega 40 prósent.
Í gær var greint frá því að bandaríska flugmálastjórnin (FAA) hefði aflétt kyrrsetningu á öllum Boeing 737 Max-flugvélum í Bandaríkjunum. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar í rúma tuttugu mánuði eftir að tvær brotlendingar voru raktar til galla í stýrikerfi vélanna.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagðist í samtali við Fréttablaðið fagna því að vélarnar megi fljúga á ný vestanhafs en Icelandair á enn eftir að frá sex 737 MAX-vélar afhentar frá Boeing.
„Við erum búin að fá afhentar sex vélar og vorum með tíu vélar til viðbótar í pöntun en í sumar skrifuðum við undir samkomulag þar sem við fækkuðum vélum í pöntun, þannig við fáum samtals tólf,“ sagði Bogi.
Hann býst við því að Icelandair fái þrjár vélar í vor og þrjár til viðbótar um áramótin 2021-2022. „Við gerum ráð fyrir því að nota MAX-vélarnar næsta sumar. Það er það sem er uppleggið okkar,“ að sögn Boga.