Bretinn John Shrimpton, annar af stofnendum asíska vogunarsjóðsins Dragon Capital, meira en tvöfaldaði eignarhlut sinn í Icelandair Group í síðustu viku þegar hann bætti við sig 200 milljónum hluta að nafnvirði og er hann núna kominn í hóp tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins.

Shrimpton er í dag skráður fyrir 350 milljónum hluta að nafnvirði, eða sem nemur 1,23 prósenta eignarhlut, en miðað við núverandi gengi bréfa félagsins – sem stendur í 1,43 krónum á hlut – er markaðsvirði þess hlutar liðlega 500 milljónir króna. Hann kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair fyrr í þessum mánuði þegar hann keypti rúmlega hálfs prósenta eignarhlut.

Á nýjum uppfærðum hluthafalista Icelandair kemur fram að "Einstaklingur 1" sé skráður fyrir 1,23 prósenta hlut. Samkvæmt heimildum Markaðarins er Shrimpton að baki þeim eignarhlut.

Á sama tíma og Shrimpton hefur aukið verulega við eignarhlut sinn í Icelandair hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) minnkað hlut sinn í flugfélaginu um 540 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem nemur tæplega 800 milljónum króna að markaðsvirði. Eftir þá sölu er LSR ekki lengur stærsti hluthafi Icelandair og nemur eignarhlutur hans – bæði í gegnum A og B-deild sjóðsins – í dag um 1.740 milljónum að nafnvirði, en það jafngildir um sex prósenta hlut.

Gildi lífeyrissjóður er nú orðinn stærstu hluthafi flugfélagsins með um 6,34 prósenta hlut.

Eftir því Markaðurinn kemst næst fjárfestir Shrimpton í dag í eigin reikningi, einkum á vaxtamörkuðum (e. frontier markets).

LSR var á meðal þeirra lífeyrissjóða sem tóku þátt í hlutafjárútboði Icelandair um miðjan september, þar sem félagið sótti sér samtals 23 milljarða króna á útboðsgenginu ein króna á hlut, en sjóðurinn skráði sig þar fyrir tveggja milljarða króna hlut. Með sölunni í dag hefur LSR því innleyst umtalsverðan söluhagnað á þeim bréfum sem hann seldi en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um meira en 40 prósent frá útboðinu.

Shrimpton er í dag stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi félagsins en bandaríski fjárfesetingasjóðurinn Par Capital, sem var um tíma stærsti hluthafi Icelandair, seldi allan 1,5 prósenta hlut sinn um miðjan síðasta mánuð.

Shrimpton kom að stofnun Dragon Capital, sem er með höfuðstöðvar í Víetnam, um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, en hann lét af störfum þar árið 2010. Sjóðurinn er í dag með eignir í stýringu að andvirði um 3 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 400 milljarða íslenskra króna.