Breskir fjárfestar og fjárfestingarsjóðir munu koma að fjármögnun á yfirtökutilboði sem gert var í Skeljung í upphafi vikunnar. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa bresku fjárfestarnir þannig skuldbundið sig til að fjármagna allt að fjórðungshlut í félaginu, eða fyrir um liðlega fjóra milljarða króna.

Á mánudag var tilkynnt um að samanlagður eignarhlutur þriggja eignarhaldsfélaga – 365, RES 9 og RPF – í Skeljungi upp á rúmlega 36 prósent hefði verið settur inn í félagið Streng. Við það virkjaðist yfirtökuskylda en að baki félögunum standa hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir, viðskiptafélagarnir Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Sævarsson, eigendur Remax á Íslandi, og hjónin Sigurður Bollason og Nanna Björk Ásgrímsdóttir.

Yfirtökuverðið hljóðar upp á 8,315 krónur á hlut, sem verðmetur Skeljung á liðlega 16 milljarða, og er það um 6,6 prósentum yfir lokagengi síðasta viðskiptadags. Til viðbótar við bresku fjárfestana hefur Strengur tryggt sér fjármögnun frá Arion banka og Íslandsbanka, sem eru umsjónaraðilar með yfirtökunni, en samþykki allir hluthafar Skeljungs tilboðið mun Strengur þurfa að greiða tæplega tíu milljarða til að eignast félagið að fullu.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er það mat fjárfestahópsins og ráðgjafa þeirra að vilyrði sé frá hópi hluthafa, sem séu reiðubúnir að selja bréf sín á þessu gengi, sem ætti að tryggja þeim yfir 50 prósenta hlut í Skeljungi. Áform fjárfestanna standa hins vegar til þess að eignast enn stærri hlut, helst að lágmarki um 67 prósent, sem myndi að líkindum þýða að í kjölfarið farið yrði fram á afskráningu félagsins úr Kauphöllinni.

Á meðal hluthafa RES 9 er breska félagið No. 9 Investments en helstu eigendur þessu eru meðal annars synir Don McCarthy, fyrrverandi stjórnarformanns House of Fraser.

Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs, segir í samtali við Markaðinn ljóst að rekstur Skeljungs muni taka grundvallarbreytingum á næstu árum. Tækniþróun sé hröð, rafbílum fjölgi á götunum og fyrir liggi að stjórnvöld stefni að því að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa á markaðnum. Við slíkar aðstæður sé mikilvægt að bakland félagsins sé sterkt og að hluthafar gangi í takt.

„Verkefni næstu ára hjá Skeljungi er að gera félagið betur í stakk búið til að takast á við miklar breytingar. Félagið mun ekki geta reitt sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til eilífðarnóns. Það þarf að lágmarka áhættu félagsins gagnvart þeim breytingum sem framundan eru og við teljum að við aðstæður sem þessar hafi félagið gott af sterkum kjölfestufjárfestum sem geti brugðist hratt við áskorunum og sameinast um þá vegferð sem fram undan er. Hópurinn er einhuga um þau skref sem nauðsynleg eru í rekstri Skeljungs, og mun lýsa þeirri sýn fyrir hluthöfum félagsins í tilboðsyfirliti sem væntanlegt er innan fjögurra vikna,“ segir Jón.

Mikil óvissa er á þessari stundu um afstöðu stærstu hluthafa Skeljungs til tilboðsins. Í samtölum Markaðarins við lífeyrissjóði og verðbréfasjóði í eigendahópnum er það skoðun flestra að yfirtökuverðið sé of lágt og því ólíklegt að mikill meirihluti þeirra muni samþykkja það að óbreyttu. Það eigi ekki síst við eftir fréttir, sem komu fram skömmu eftir að yfirtökutilboðið var lagt fram, að bóluefni kunni að komast í almenna dreifingu fyrr en vonir stóðu til og hefur aukið mjög bjartsýni fjárfesta á hlutabréfamörkuðum. Gengi hlutabréfa Skeljungs hefur hækkað um 7,3 prósent í vikunni og stóð í 8,37 krónum á hlut við lokun markaða í gær, litlu meira en yfirtökuverðið hljóðar upp á.

Líklegt er talið, samkvæmt heimildum Markaðarins, að einhverjir í hluthafahópi Skeljungs muni óska eftir því við stjórn félagsins að fenginn verði óháður aðili til að framkvæma verðmat á félaginu. Á meðal stærstu hluthafa eru lífeyrissjóðirnir Gildi, Frjálsi og Birta og sjóðir í stýringu Stefnis.

Skeljungur er eigandi að olíufélaginu P/F Magn í Færeyjum auk þess að reka meðal annars dagvöruverslanir undir merkjum 10-11 hér á landi. Þá er félagið með þriðjungshlut í Wedo, sem á og rekur vefverslanir á borð við Heimkaup.is, auk þess sem það keypti fjórðungshlut í Brauð & Co og Gló fyrr á árinu.