Aukins áhuga gætir meðal breskra ferðamanna á heimsóknum til Íslands síðsumars og inn í haustið, að sögn Birnu Óskar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs Icelandair. Bresk stjórnvöld kynntu í vikunni áætlun um afléttingu sóttvarnaráðstafana á næstu mánuðum. Ef allt fer að óskum munu Bretar geta um frjálst höfuð strokið um mitt sumar. Bretar eru komnir lengst Evrópuþjóða í bólusetningum. Um fjórðungur þjóðarinnar hefur fengið fyrri skammt af bóluefni gegn COVID-19.

BBC greinir frá því að stærsta ferðaskrifstofa Bretlands, Tui, hafi sagt frá 500 prósenta aukningu í bókunum sólarhringinn eftir að áætlun breskra stjórnvalda var kynnt. „Við sjáum lítil en skýr merki þess að Bretar séu farnir að huga að Íslandsferðum í haust, en við höfum fyrst og fremst verið vetraráfangastaður fyrir Breta,“ segir Birna Ósk. „Við munum því ráðast í sérstakt markaðsátak á Bretlandsmarkaði á næstu dögum og vikum.“

Þótt Bretar séu fyrst og fremst að horfa til Íslandsferða næsta haust eru enn þá tækifæri fyrir ferðamannaiðnaðinn í sumar, segir Birna Ósk. „Við sáum síðasta sumar að allt í einu fylltist allt af Dönum og Þjóðverjum á Íslandi, vegna þess að staða faraldursins var góð þar líkt og hér heima. Þá var fólk mikið að bóka á síðustu stundu og það gæti líka gerst næsta sumar, enda mikill ferðavilji og ferðaþörf uppsöfnuð hjá fólki um allan heim.“