Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, efast um að æskilegt sé að koma fyrir bremsum í húsnæðisleigusamninga. Slíkt gæti valdið minna framboði af leiguhúsnæði og þar með komið leigumarkaðnum í ójafnvægi.

Þetta sagði Bjarni í viðtali við Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem streymt var á YouTube. ASÍ stendur í aðdraganda Alþingiskosninganna í haust fyrir röð samtala við forystufólk flokkanna.

Drífa spurði fjármálaráðherra hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi beita sér fyrir því að setja bremsur á leigusamninga þannig leigusalar gætu ekki hækkað leigu án rökstuðnings.

Bjarni sagði að vandinn við væri að etja væri í raun óstöðugleiki. „Það þarf að dýpka samtalið um hvað við getum gert til að efla stöðugleika,“ sagði hann.

Bjarni nefndi að stöðugleiki hvíli á nokkrum þáttum. Vinnumarkaðurinn knýi ekki fram stöðugleika án samtals við stjórnvöld, ríkisstjórnin verði að vera í takt við sveitarfélög og hið opinbera þurfi að hlusta á Seðlabankann.

Drífa sagði að Bjarna væri tíðrætt um stöðugleika. Hann gagnist lítið þeim sem hafi minnst á milli handanna og eigi erfitt með að framleita sér.

Bjarni svaraði að efnahagslegur óstöðugleiki bitnaði mest á þeim sem væru viðkvæmastir fyrir. „Þegar það fara af stað vaxtahækkanir og verðbólguskeið er það fólkið sem aldan brotnar fyrst á,“ sagði hann.

Bjarni sagði að félagslegur hreyfanleiki væri einna mestur á Íslandi og að enginn talaði um að halda ætti fólki stöðugt í viðkvæmri stöðu.