Jakobsson Capital verðmetur tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds, sem er sérhæft í herkænsku- og hlutverkaleikjum, frá 13,6 krónum á hlut að 38,4 krónum á hlut. Munurinn liggur í mismunandi verðmatsaðferðum en fyrirtækið er ekki hefðbundið rekstrarfélag með tekjusögu.

Sprotafyrirtækið áætlar að selja 24,1 til 31,5 prósenta hlut í hlutafjárútboði sem lýkur í dag og afla við það 500-725 milljónir króna. Útboðsgengið er 12,5 krónur á hlut. Solid Clouds stefnir á að gefa út tölvuleiki á þriggja ára fresti en nýr leikur, Frontiers, mun líta dagsins ljós eftir um það bil eitt ár.

Í verðmatinu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, segir að þegar horft sé með gleraugum nýsköpunarfræðanna (e. venture capital method) fáist verðið 34,7 til 38,4 krónur eftir því hversu mikið hlutafé verði gefið út. Sú aðferð byggi á kennitölusamanburði. Vandinn sé að sprotafyrirtæki séu sjaldan skráð á hlutabréfamarkað og því erfitt að finna kennitölur fyrir sambærileg félög. Umrædd „aðferðafræði grípur vel þann mikla ávinning sem fylgir fjárfestingu í sprotafyrirtækjum en tekur lítið tillit til áhættu.“ Hin aðferðin, að núvirða væntan hagnað að teknu tilliti til þess að um helmingslíkur séu á að áætlunin gangi eftir. Samkvæmt henni verðmetur Jakobsson Capital fyrirtækið á 13,6 til 15,0 krónur á hlut eftir því hversu mikið nýtt hlutafé verði gefið út. Notast var við 14,72 prósent ávöxtunarkröfu og 4,8 prósenta framtíðarvöxt að nafnverði.

„Fjárfesting í sprotafyrirtæki er ekki hefðbundin hlutabréfafjárfesting. Fjárfestum er bent á að mjög mikil áhætta felst í fjárfestingu í sprotafyrirtæki og getur öll fjárfestingin auðveldlega tapast en ávinningurinn getur verið mjög mikill ef vel gengur,“ segir í verðmatinu.

Í verðmatinu er dregið fram að tekjur CCP hafi orðið tveir milljarðar króna á sex árum en stjórnendur Solid Clouds reikna með að einu og hálfu ári eftir að tölvuleikurinn Frontiers komi út verði tekjurnar tæplega 4,2 milljarðar króna. „Hafa þarf þó í huga að verðlag hefur tæplega tvöfaldast síðan 2007 þegar verið er að bera saman tekjur fyrirtækjanna. Sömuleiðis er tölvuleikjamarkaðurinn margfalt stærri nú en fyrir 15 árum,“ segir í verðmatinu