Ársskýrsla Íslandspósts fyrir árið 2022 var gefin út í dag og segir í tilkynningu frá félaginu að niðurstöður skýrslunnar bendi til þess að hagræðingar hafi skilað árangri þrátt fyrir áskoranir.
Íslandspóstur segir að aukin samkeppni á póstmarkaði, hækkun launa, vaxtahækkanir, áhrif stríðsins í Úkraínu, sem og hærra eldsneytisverð hafi haft áhrif á afkomu Póstsins. Auk þess dró úr innlendri netverslun á milli ára, sérstaklega eftir afléttingu samkomutakmarkanna.
Á árinu fjölgaði póstboxum einnig úr 47 í 62 og stefnt er að enn frekari fjölgun á þessu ári. Mönnuðum afhendingar- og móttökustöðvum var fækkað á árinu og þess í stað er póstþjónustan veitt með póstboxum og póstbílum í meira mæli en áður.
Bréfum hefur einnig fækkað um tæp 80 prósent frá 2010 og heldur áfram að fækka. Í kjölfar þess var tekin ákvörðun í maí á síðasta ár um það að dreifa bréfum aðeins tvisvar í viku eins og lög gera ráð fyrir.
„Þótt verkefnin breytist og áhersla á pakkasendingar aukist er hlutverk Póstsins óbreytt, að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.
Þórhildur segir að eitt stærsta verkefni Póstsins í loftslagsmálum eru orkuskipti bílaflotans en bílstjórar á vegum Póstsins óku um 5,2 milljónir kílómetra árið 2022.
Pósturinn hyggst breyta þessu og verða allar sendingar fluttar smám saman með umhverfisvænan máta og verður allt landið gert að grænu dreifingarsvæði. "Þess má geta að bréfaútburður í þéttbýli er nú þegar grænn þar sem rafmagnspósthjól, sem fóru um 350 þúsund km á árinu, eru nýtt við dreifinguna,“ segir Þórhildur að lokum.