Verð hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um 8,4 prósent í 164 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni það sem af er degi. Bréfin tóku skarpa dýfu þegar bresk flugmálayfirvöld tilkynntu að engar Boeing 737 MAX mættu fljúga innan breskrar lofthelgi. 

Sjá einnig: Bretar og Norwegian banna Boeing 737 MAX

Boeing 737 MAX mega því ekki lenda, taka á loft eða fljúga yfir Bretland. Bannið verður í gildi þar til meiri upplýsingar berast. 

Stuttu eftir að bresk flugmálayfirvöld tilkynntu að vélarnar væru ekki heimilar innan breskrar lofthelgi tilkynnti norska flugfélagið Norwegian að þau hafi kyrsett 18 slíkar vélar.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Icelandair sé með tilbúna áætlun ef flugmálayfirvöld ákveða að kyrrsetja þær þrjár vélar sem eru í eigu flugfélagsins.