Þau tíðindi að Ágúst Fannar hefði selt 13% hlut sinn í Brauði og co, félaginu sem hann stofnaði, hafa vakið mikla athygli í dag. Kaupendur hlutarins voru meðeigendur hans, Þórir Snær Snæbjörnsson og hjónin Eygló Kjartansdóttir og Birgir Þór Bieltvedt, í gegnum félag sitt, Eyja fjárfestingafélag. Fyrir áttu hjónin 53% hlut í félaginu en Þórir 34% Fram kom að Ágúst Fannar myndi áfram starfa sem starfsmaður bakarískeðjunnar vinsælu sem hann skapaði. Söluverðmæti hlutarins er þó enn á huldu.

Brauð og co. opnaði í mars 2016 og byggðist á hugmynd Ágústar Fannars og vinar hans, Þóris Snæs. Þeir leituðu til Eyglóar og Birgis varðandi fjármögnunin sem gekk eftir í gegnum félagið Gló sem rekur samnefnda veitingastaðakeðju. Síðar keyptu Eygló og Birgir hlutinn í Brauð og co. út úr Gló.

Samkvæmt opinberum gögnum var viðskiptasamband Ágústs og hjónanna þó talsvert flóknara en sneri að rekstri Brauð og co. Samkvæmt þinglýstum lánasamningi, dagsettum 19.júlí 2017, lánaði Eyja fjárfestingafélag Ágústi persónulega 40 milljónir króna. Fjármunina nýtti síðan Ágúst til kaupa á húsi í Skerjafirði og var lánið þinglýst á 4.veðrétti fasteignar Ágústs. Þá setti Ágúst einnig allt hlutafé í eignarhaldsfélagi sínu, sem hélt utan um hlutinn í Brauð og co, að veði fyrir láninu.

Vextir lánsins, sem áttu að reiknast frá miðjum maí 2017, voru 10% fyrsta árið en hækkuðu síðan um 1% á hverju ári. Vexti átti Ágúst að greiða mánaðarlega og vaxtavexti á ársfresti. Ágústi bar síðan að endurgreiða höfuðstól skuldarinnar, í einni greiðslu, í maí 2020. Lauslega áætlað hefðu vaxtagreiðslur af þessu þriggja ára láni numið um 14 milljónum króna.

Hin veðsetta fasteign var síðan seld í júní 2018. Í kaupsamningi kemur fram að eftirstöðvar lánsins hafi staðið í 44,5 milljónum króna og hefur því Ágúst verið kominn veruleg vanskil við viðskiptafélaga sína. Það hefur eflaust skapað flókna stöðu þeirra á milli sem nú hefur verið greitt úr.