Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins brandr sem kom að því að uppfæra vörumerki Bónus, segir að margt sé að breytast í því umhverfi sem verslunin starfi og því þurfti að undirbúa vörumerkið fyrir þær breytingar. „Hér er átt við mjög víða skilgreiningu á orðinu vörumerki þar sem breytingarnar ná til mun fleiri hluta en bara grísinn og útlit hans,“ segir hann við Fréttablaðið. Brandr kom til dæmis að endurmörkun Origo sem áður hét Nýherji og ISAVIA.

Friðrik segir að tekin hafi verið ákvörðun um að skoða markaðslega staðsetningu Bónus á matvörumarkaðnum og mikil vinna var unninn við að skilja styrkleika og veikleika vörumerkis Bónus eins og hún sé í dag og til næstu ára.

„Bónus er fyrir alla og við viljum einlæglega að Bónus sé sú lágvöruverslun sem auðveldar þér lífið með réttri samsetningu af góðum vörum á góðu verði. Þannig hámarkar Bónus virði innkaupa og gerir þau einföld og ánægjuleg fyrir viðskiptavini. Eins og alltaf - ekkert bruðl, það breytist aldrei. Þannig er Bónus með þér í liði,“ segir hann.

Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins brandr.
Mynd/Aðsend

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Bónusgrísinn hafi verið óbreyttur í yfir 30 ár.

Samkvæmt tilkynningu frá Bónus er breytingin gerð til þess að aðlaga vörumerkið að þeirri stafrænu vegferð sem fram undan er í rekstri verslananna. Merkið mun þannig henta betur til stafrænnar notkunar en einnig verður hægt að nota merkið með nýjum hætti í verslunum Bónus og í almennum auglýsingum.