brandr vísitalan, íslensk vörumerkjamælinga lausn, hefur nú sókn á nýja markaði og var þýskt útibú opnað formlega með móttöku í sameiginlegu samkomuhúsi norrænu þjóðanna í Berlín í vikunni. Á meðal boðsgesta var áhrifafólk í þýsku viðskiptalífi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Þýskalandi, sagði í opnunarræðu að mælitækið myndi hjálpa þýskum fyrirtæki að meta þá verðmætu eign sem vörumerki eru og að það væri ánægjulegt að þessi íslenska lausn væri núna komin til Þýskalands.

brandr vísitalan er orðin vel þekkt mælingartæki á Íslandi og er afurð átta ára þróunarvinnu dr. Friðriks Larsen, dósents í Háskóla Íslands og eiganda brandr ráðgjafafyrirtækisins. brandr aðferðarfræðin gefur eigendum vörumerkja innsýn í stöðu sína á markaði. Hún mælir styrkleika og veikleika ímyndar, árangur og arðsemi markaðsstarfs og viðmið við önnur vörumerki (e. benchmarking). Lokaafurðin er 90 blaðsíðna skýrsla þar sem mikilvægar niðurstöður eru settar fram á skýran og auðskiljanlegan hátt og hjálpa forsvarsmönnum að taka betri ákvarðanir.

Aðferðarfræðin hefur gefið góða raun hér á landi og hafa nú yfir eitt hundrað íslensk fyrirtæki þegar nýtt sér lausnina til þess að árangursmæla sín vörumerki. Vísitalan er m.a. það verkfæri sem er notað við val á Bestu Íslensku vörumerkjunum. brandr hefur að markmiði að auka veg og virðingu stefnumiðaðrar stjórnunar vörumerkja til aukinnar arðsemi fyrirtækja og hluti af þeirri sýn er að auka sýnileika faglegrar og vandaðrar vörumerkjastefnu hjá fyrirtækjum. Vonir standa til þess að val á Bestu þýsku vörumerkjunum verði einnig orðið að veruleika innan fárra ára.

Reynsla af ráðgjöf og stefnumótun vörumerkja á erlendum mörkuðum er töluverð hjá brandr en hluti starfseminnar hefur sinnt ráðgjöf til erlendra orkufyrirtækja undir nafni Larsen Energy Branding og starfað með fjölmörgum stórum alþjóðlegum fyrirtækjum. Í því starfi hefur orðið vart við skort á aðgengilegum mælingum fyrir stjórnendur erlendis sem náðst hefur að koma til móts við með brandr vísitölunni og var það upphafið að þeirri hugmynd sem nú er að raungerast með opnun á fyrsta erlenda útibúi brandr. Lausnin byggir á eBBI (e. Energy branding Benchmarking index) en sú lausn vinnur nú þegar með yfir 2 milljónir gagnapunkta erlendis.

Innleiðing brandr vísitölunnar í Noregi er einnig hafin og má vænta frekari frétta af norska markaðnum á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.