Deilur eru komnar upp milli breska ríkisútvarpsins, BBC, og ríkisstjórnarinnar vegna útvarpsgjalds fyrir eldri borgara, en hið opinbera hefur hingað til greitt gjaldið fyrir þá sem eru eldri en 75 ára. Í þjónustusamningi milli BBC og breskra stjórnvalda frá 2015 voru gerðar tilteknar breytingar á innheimtu útvarpsgjalds. Í þeim fólst meðal annars að BBC varð í fyrsta skipti heimilt að innheimta gjaldið vegna áhorfs á netinu, og að útvarpsgjald var í fyrsta skipti tengt verðbólgu. Í þessu fólst auðvitað tekjuaukning fyrir BBC, sem á móti samþykkti að bera fjárhagslega ábyrgð á ívilnunum í þágu eldri borgara frá og með árinu 2020.

Útvarpsstjóri BBC taldi samkomulagið á sínum tíma mikinn sigur fyrir BBC. Nú er komið að því að efna þann hluta sem snýr að niðurgreiðslu fyrir eldri borgara, en þá er annað hljóð komið í strokkinn. Forsvarsmenn stofnunarinnar vilja að ríkið stígi inn í, að öðrum kosti sé ekki annað í stöðunni en að skerða þjónustu. Loka sjónvarpsstöðvum og útvarpsrásum. Boris Johnson forsætisráðherra tekur ekki í mál að hlaupa undir bagga með BBC. Það eigi að sjá sóma sinn í að standa við samkomulagið.

Fyrir þá sem fylgjast með umræðu um opinberar stofnanir eru þetta kunnuglegar átakalínur. Hérlend dæmi eru mýmörg. Til stendur að sameina FME og Seðlabankann. Engar fyrirætlanir virðast hins vegar um að fækka starfsfólki, og lét forstjóri FME meira að segja hafa eftir sér að engin ástæða væri til að sameina stofnanirnar undir einu þaki. Til hvers þá sameiningin?

Stefið frá Bretlandi er líka kunnuglegt fyrir þá sem fylgst hafa með umræðu um að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Viðkvæðið hjá stjórnmálafólki virðist vera að bæta verði stofnuninni upp tekjutapið! Má aldrei gera þá kröfu til opinberra stofnana að tekið sé til í rekstri? Í fyrsta lagi verða auglýsingatekjur RÚV ekki til í tómarúmi. Hjá stofnuninni starfar auglýsingadeild, og er því talsverðu til kostað svo ná megi í tekjurnar. Sá kostnaður heyrði sögunni til ef starfsemin væri ekki lengur fyrir hendi. Í öðru lagi starfa margfalt fleiri hjá RÚV en hjá einkafyrirtækinu Sýn, þótt afköstin séu margföld hjá hinu síðarnefnda.

Íslenskir stjórnmálamenn ættu því að sperra eyrun og fylgjast með baráttu Boris við BBC. Það er víst hægt að gera sparnaðarkröfu til opinberra stofnana.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.