Borgun tapaði 972 milljónum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í ársreikningi Íslandsbanka fyrir síðasta ár en bankinn fer með 63,5 prósenta hlut í greiðslukortafyrirtækinu. Til samanburðar tapaði Borgun 1.069 milljónir króna árið 2018.

Í ársreikningnum segir auk þess að Íslandsbanki hafi hafið viðræður við hugsanlega kaupendur að hlut bankans í félaginu en enn sé það háð töluverðri óvissu hvort af sölu verði.

Rekstrartekjur Borgunar voru alls 2.603 milljónir króna í fyrra samanborið við 2.128 milljónir króna árið áður. Þá voru hreinar vaxtatekjur félagsins 872 milljónir króna á síðasta ári og hreinar þóknanatekjur 1.716 milljónir króna.

Launtengd gjöld Borgunar námu alls 2.260 milljónum króna í fyrra og jukust frá fyrra ári þegar þau voru um 2.072 milljónir króna. Þá var annar rekstrarkostnaður félagsins 1.359 milljónir króna árið 2019.

Eins og greint var frá í Markaðinum fyrr í mánuðinum eru viðræður um kaup á öllu hlutafé Borgunar langt komnar en bankinn hefur verið með eignarhlut sinn í félaginu í söluferli frá því í ársbyrjun 2019. Er í viðræðunum gert ráð fyrir að kaupverðið fyrir Borgun verði í kringum sjö milljarðar króna, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Corestar Partners hefur verið bankanum til ráðgjafar í söluferlinu.

Minnihlutaeigendur Borgunar munu jafnframt selja hlut sinn í Borgun nái kaupin fram að ganga. Þar munar mestu um eignarhaldsfélagið Borgun, sem er samlagsfélag í eigu meðal annars Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, en það fer nú með 32,4 prósenta hlut í greiðslukortafyrirtækinu. Félagið kom fyrst inn í hluthafahóp Borgunar þegar það keypti sem þekkt er rúmlega 31 prósents hlut í fyrirtækinu af Landsbankanum í árslok 2014 fyrir um 2,2 milljarða króna.