Borgun sagði upp rúmlega 140 erlendum viðskiptavinum vegna athugasemda frá Fjármálaeftirlitinu sem bárust árið 2017.

Fyrir Landsrétt hafa verið lögð „gögn sem gefa [það] til kynna“ segir í dómi réttarins sem kveður á um að Borgun hefði átt að greiða fyrrverandi forstöðumanni alþjóðasviðs fyrirtækisins fullan kaupauka við árslok 2017.

Fram hefur komið í fréttum að Fjármálaeftirlitið (FME) gerði á árinu 2017 margvíslegar athugasemdir við eftirlit kortafyrirtækisins með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í úrtaki FME sem í voru 16 viðskiptavinir alþjóðasviðs kannaði fyrirtækið ekki áreiðanleika upplýsinga um 13 þeirra með fullnægjandi hætti. Þess vegna krafðist eftirlitið að Borgun sliti viðskiptum við þá og að kortafyrirtækið færi yfir framkvæmd áreiðanleikakannana vegna annarra erlendra viðskiptavina. Slíta ætti viðskiptum við þá sem ekki uppfylltu lagaleg skilyrði.

Rekstur Borgunar hefur gengið erfiðlega á síðustu árum en til marks um það tapaði félagið ríflega 972 milljónum króna á síðasta ári borið saman við 1.069 milljóna króna tap árið 2018.

Erlenda greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay keypti Borgun í mars fyrir um fimm milljarða, að því er fram kom í Markaðnum. Seljendur voru Íslandsbanki sem átti 64 prósenta hlut, eignarhaldsfélagið Borgun, sem meðal annars var í eigu Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, með 32 prósenta hlut og félag í eigu stjórnenda Borgunar með tveggja prósenta hlut.

Landsdómur dæmdi Borgun til að greiða Sigurði Guðmundssyni, yfirmanni alþjóðasviðs fyrirtækisins, 1,6 milljónir auk vaxta og málskostnaðar.

Í árslok 2014 fékk Sigurður greidd 60 prósent af umsömdum kaupauka en greiðslu 40 prósenta fjárhæðarinnar var frestað í þrjú ár. Sá hluti kaupaukans var hins vegar ekki inntur af hendi í árslok 2017 og því höfðaði Sigurður mál á hendur Borgun.