Borgun sagði upp 13 starfsmönnum í liðinni viku. Fyrirtækið staðfestir það í svari við fyrirspurn Markaðarins.

„Uppsagnirnar tengdust yfirstandandi áherslubreytingum í starfsemi Borgunar. Breytingunum er ætlað að gera rekstur fyrirtækisins sjálfbærari til lengri tíma, meðal annars með því að draga úr áherslu á áhættusæknari söluaðila og efla þjónustu við söluaðila í stöðugum og áhættuminni rekstri. Það er alltaf erfitt að sjá á eftir góðu samstarfsfólki og við þökkum því kærlega fyrir góð störf á liðnum árum,“ segir í svarinu.

Tíu uppsagnir í júlí

Markaðurinn sagði frá því í júlí að Borgun hefði sagt upp tíu starfsmönnum, þar á meðal úr efsta stjórnendalagi fyrirtækisins.

Skömmu áður hafði alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay gengið frá kaupum á tæplega 96 prósenta eignarhlut í Borgun fyrir samtals 27 milljónir evra, jafnvirði 4,4 milljarða króna.

Kaupverðið lækkaði vegna COVID-19

Kaupverðið á Borgun, sem var í meirihlutaeigu Íslandsbanka var lækkað um átta milljónir evra vegna þeirra neikvæðu efnahagsáhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á rekstur félagsins.

Rekstrartap Borgunar á fyrstu fimm mánuðum ársins nam 642 milljónum króna sem var nokkuð verri afkoma en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.