Borgun hefði átt að upplýsa um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut félagsins í Visa Europe Limited til Visa Inc. Mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans voru mikilvægar við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings á sínum tíma. Þetta er niðurstaða dómskvaddra matsmanna.

Landsbankinn seldi 31,2 prósenta hlut í Borgun í lokuðu söluferli í lok árs 2014 til hóps fjárfesta en á meðal þeirra voru Einar Sveinsson og fjárfestingafélagið Stálskip. Hluturinn var keyptur á tæplega 2,2 milljarða króna en skömmu síðar kom í ljós að Borgun átti eignarhlut í Visa Europe sem sameinaðist síðan Visa Inc. Söluhagnaður Borgunar nam um 6,5 milljörðum króna en enginn fyrirvari hafði verið gerður um viðbótargreiðslur til Landsbankans.

Landsbankinn höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Borgun, BPS, Eignarhaldsfélaginu Borgun og þáverandi forstjóra Borgunar í byrjun árs 2017. Bankinn telur að við söluna á eignarhlutnum hafi upplýsingar um hlut Borgunar í Visa Europe ekki verið látna í té. Krefst Landsbankinn viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem bankinn varð fyrir af þessum sökum en hann telur sig hafa farið á mis við 1.930 milljónir króna hagnað við söluna.

Haustið 2018 kvað héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð um dómkvaðningu matsmanna til þess að leggja mat á tiltekin atriði varðandi ársreikning Borgunar.

Í nýjum ársreikningi Landsbankans er greint frá matsgerðinni sem matsmennirnir skiluðu í vetur. Matsmennirnir telja meðal annars að upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar í Visa Europe til Visa, skilmála hans og mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans hafi verið mikilvægur við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings Borgunar árið 2013.

Samkvæmt matsgerðinni hefði Borgun átt að upplýsa um eignarhlut sinn í Visa Europe og að félagið væri aðili að Visa Europe í ársreikningi 2013. Borgun hefði jafnframt átt að gera grein fyrir valréttinum í ársreikningi 2013 í samræmi við ákvæði alþjóðlegs reikningsskilastaðals og upplýsa um óvissu um hann í skýrslu stjórnar.

Þá telja matsmennirnir að ársreikningur Borgunar fyrir árið 2013 hafi ekki uppfyllt allar kröfur laga um ársreikninga og alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Við fyrirtöku málsins í lok janúar lagði Borgun fram beiðni um dómskvaðningu yfirmatsmanna.

Eins og greint var frá í Markaðinum í vikunni eru viðræður um kaup á öllu hlutafé Borgunar langt komnar en Íslandsbanki, sem á 63,5 prósenta eignarhlut í greiðslukortafyrirtækinu, hefur verið með hlut sinn í söluferli frá því í ársbyrjun 2019.

Samkvæmt heimildum Markaðarins standa nú yfir viðræður við tvö erlend félög og í þeim er gert ráð fyrir að kaupverðið fyrir Borgun verði í kringum sjö milljarðar króna, eða sem nemur liðlega bókfærðu eigin fé félagsins. Þá ríkir óvissa um verðmat á bréfunum í Visa Inc. Og ekki liggur fyrir hvort þau muni fyglja með kaupunum.