Starfsmenn á skrifstofu Reykjavíkurborgar hafa aðgang að Vinnustofu Kjarvals, sem er vinnu- og samkomurými við Austurvöll, í gegnum sérstakan samning sem borgin hefur gert við eigendur vinnustofunnar. Reykjavíkurborg greiðir alls 1,6 milljónir króna fyrir ársaðgang starfsfólksins.

Þetta staðfestir upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar í svari við fyrirspurn Markaðarins en hann segir að um sé að ræða tilraunaverkefni til eins árs.

„Markmiðið með tilraunaverkefninu er einnig að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks og tryggja aðgang að fundaaðstöðu utan stjórnsýslubygginga á hagkvæmu verði,“ segir í svari frá upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar.

Vinnustofa Kjarvals, sem var opnuð í byrjun síðasta árs, spannar um 400 fermetrar á efstu hæð samliggjandi húsa númer 10 og 12 við Austurstræti. Staðurinn, sem er í eigu Hálfdanar Steinþórssonar, stofnanda GoMobile, Hrannars Péturssonar, aðstoðarmanns mennta- og menningarmálaráðherra, og Alexanders Arons Gylfasonar, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2018, hefur notið vinsælda sem vettvangur fyrir vinnufundi en einnig mannamót utan vinnu.

Hvert aðgangskort kostar 120 þúsund krónur auk virðisaukaskatts og gildir til 1. nóvember 2020.

Fyrirtæki og einstaklingar semja um aðgang að vinnustofunni, greiða ársgjald, og geta nýtt hana til fundarhalda og afþreyingar. Eftir því sem kemur fram í samningi Reykjavíkurborgar við Vinnustofu Kjarvals er borgin með ellefu aðgangskort, eitt fyrir hvert svið og hverja skrifstofu sem ákvað að taka þátt, en þau veita aðgang að vinnustofunni og veitingaaðstöðu alla daga vikunnar. Hvert aðgangskort kostar 120 þúsund krónur auk virðisaukaskatts og gildir til 1. nóvember 2020.

Í samningi Reykjavíkurborgar við vinnustofuna er hún sögð „sérlega vel til þess fallin að taka á móti erlendum og innlendum viðskiptavinum, hitta samstarfsfólk vegna vinnu eða utan hennar, rækta tengsl við aðra eða sinna störfum sínum í næði frá dagsins önn“.

Á vinnustofunni er sögð góð aðstaða til funda og samkomuhalds og að boðið sé upp á drykki og léttar veitingar. Opið er til klukkan 1 að nóttu um helgar. Þá er henni einnig lýst sem „vettvangi fyrir fólk úr atvinnulífinu til að rækta tengsl hvert við annað“.

Hvert og eitt kort gildir fyrir fimm manns hverju sinni en ekki er gerð athugasemd ef þeir eru fleiri. Þá hafa starfsmenn borgarinnar forgang að viðburðum sem Vinnustofa Kjarvals sendur fyrir á staðnum, til dæmis á hátíðis- og tyllidögum.

„Þótti ljóst að fjárhagslegur ávinningur væri af því að semja við einn aðila sem mætt gæti fjölþættum þörfum.“

Í svari frá upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar kemur fram að á hverju ári leigi svið og skrifstofur borgarinnar ýmis fundarrými utan stjórnsýsluhúsanna til teymisvinnu og fyrir starfsdaga, vinnustofur og starfsþróunarviðtöl svo eitthvað sé nefnt.

„Þörfin fyrir þetta hefur aukist vegna aukinnar hagræðingar í húsnæðismálum með opnum rýmum og fleira starfsfólki undir sama þaki,“ segir í svari upplýsingastjórans sem bætir við að haustið 2019 hafi verið áætlaður kostnaður vegna leigu á fundarrýmum utan stjórnsýsluhúsanna og ákveðið að kanna hvort hægt væri að finna hagkvæmar lausnir.

„Borgarritari hafði forystu um að gera verðfyrirspurnir meðal rekstraraðila sem gætu mætt þörfum borgarinnar í þessu efni. Að því loknu þótti ljóst að fjárhagslegur ávinningur væri af því að semja við einn aðila sem mætt gæti fjölþættum þörfum,“ segir jafnframt í svari borgarinnar. Því hafi verið ákveðið að fara í eins árs tilraunaverkefni með Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti.

Þá er reynsla borgarinnar af verkefninu sögð hafa verið góð þar sem margir hafi aðgang að vinnustofunni og nýti hana til starfsmannasamtala, starfsdaga og lengri teymisfunda.