Reykjavíkurborg hefur gefið út nýjan grænan skuldabréfaflokk með auðkennið RVKG 48 1. Skuldabréfin eru verðtryggð með jöfnum greiðslum til 30 ára með greiðslu afborgana og vaxta á 6 mánaða fresti. Seld hafa verið skuldabréf í flokknum fyrir 4,1 milljarð króna. Ávöxtunarkrafan var 2,40 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fram hefur komið í Markaðnum að það stæði til að Reykjavíkurborg gæfi út græn skuldabréf. „Það er mikilvægt að sterkur aðili sem gefur reglulega út skuldabréf ryðji brautina fyrir græn skuldabréf á íslenska markaðnum,“ sagði Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða en fyrirtækið annaðist söluna í lokuðu útboði. 

Áður hafi Landsvirkjun gefið út græn skuldabréf í dollurum sem seld voru fagfjárfestum í Bandaríkjunum og því bendir hann á að íslenskir fjárfestar hafi ekki fengið tækifæri til að fjárfesta í þeim bréfum. Græn skuldabréf séu gefin út til að fjármagna umhverfisvæn verkefni, ekki síst þau sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Viðtal í Markaðnum: Reykjavík ryður brautina fyrir græn bréf

Umframeftirspurn var í útboðinu en lántaka takmarkast við eftirstöðvar lántökuheimildar ársins. Flokkurinn er opinn að stærð og fyrirhugað er að hann verði stækkaður á komandi árum og að viðskiptavakt verði tekin upp með flokkinn.

Rekja má sögu grænna skuldabréfa ellefu ár aftur í tímann. Alþjóðabankinn gaf út fyrstu grænu skuldabréfin árið 2007. „Segja má að markaðurinn hafi síðan farið af stað af fullum krafti árið 2013,“ sagði Andri. Það ár gaf í fyrsta skipti fyrirtæki og sveitarfélag út græn skuldabréf. Um var að ræða stærsta fasteignafélag Norðurlanda, Vasakronan, og Gautaborg í Svíþjóð.

Franska ríkið stærst

„Franska ríkið gaf svo út stærstu grænu ríkisskuldabréfaútgáfuna árið 2017. Í Frakklandi var sterkur pólitískur vilji til að ráðast í slíka útgáfu en útgáfan, sem var sjö milljarðar evra, var mjög vel heppnuð og mikil umframeftirspurn í útboðinu,“ sagði hann. Önnur lönd sem farið hafi þessa leið séu til dæmis Írland og Pólland.

„Það er bara tímaspursmál hvenær íslenska ríkið gefur út græn skuldabréf,“ sagði  Andri og nefnir að það myndi gefa gott fordæmi ef íslenska ríkið væri á meðal fyrstu ríkja heims í að gefa út slík bréf. Hann bentir á að íslensk stjórnvöld séu með metnaðarfulla aðgerðaáætlun varðandi loftslagsmál og því væri útgáfa grænna skuldabréfa rökrétt framhald af þeirri vinnu. „Parísarsamkomulagið og önnur samvinna þjóða um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hefur drifið áfram þennan markað,“ sagði  hann.