Álverðstenging raforkuverðs var ein helsta ástæða þess að forsvarsmenn Century Aluminum sáu sér þann leik á borði að kaupa álverið við Grundartanga árið 2004 af Columbia Ventures Corporation.

Þetta er mat Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminum, sem var staddur hér á landi á dögunum. Fram kom í Kauphallartilkynningu þann 17. maí síðastliðinn að Bless myndi brátt láta af störfum sem forstjóri Century eftir 10 ár í forstjórastólnum.

Upprunaleg ástæða þess að álframleiðendur komu upp starfsemi á Íslandi var samkeppnishæft orkuverð. Núna er orkuverð víðar lægra en á Íslandi. Aðspurður hvort samkeppnisforskot Íslands sé enn þá fyrir hendi með tilliti til raforkuverðs, segir Bless að svo sé.

„Málið snýst ekki endilega um lægra eða hærra verð. Það sem okkur þótti aðlaðandi var tengingin við álverð. Við borgum glaðir hærra raforkuverð ef okkar afurðaverð er hátt. Century Aluminum er ekki stór álframleiðandi á alþjóðlegan mælikvarða og samkeppnisaðilar okkar, sem eru með ýmiss konar aðra starfsemi en álframleiðslu, þola betur sveiflur í álverði en við.

Þess vegna er álverðstengingin afar mikilvæg fyrir okkur. Við erum líka með álverðstengingu í aðfangakaupum okkar, til að mynda við innkaup á súráli. Á sama hátt og við raforkuinnkaup þá borgum við súrálsbirgjum okkar glaðir hærra verð ef álverð hækkar.

En það var fyrst og fremst álverðs­tengingin sem var aðlaðandi í okkar augum, hún þýðir að við getum haft betri stjórn á okkar rekstraráhættu. Svo verður líka að nefna að álverið í Grundartanga er eitt það glæsilegasta með tilliti til stjórnunar, öryggismála, gæðamála og annars. Eitt er að komast á þennan stað en annað að viðhalda svo háum gæðastöðlum allan þennan tíma. Það er stjórnendunum hér heima að þakka.“


Ekki skoðað stækkun um skeið


Þegar Century Aluminum festi kaup á álverinu við Grundartanga árið 2004 var framleiðslugeta þess 90 þúsund tonn á ári. Í tilkynningu vegna kaupanna var greint frá því að fyrirhugað væri að byggja nýjan kerskála og auka framleiðslugetuna í 180 þúsund tonn. Síðan þá hefur mikil uppbygging átt sér stað og framleiðslugeta Grundartanga er 320 þúsund tonn.

Hefur komið til álita að skoða byggingu þriðja kerskálans í Hvalfirði?

„Þrátt fyrir að núverandi markaðsverð á áli myndi auðvitað réttlæta stækkun við Grundartanga er ekki skynsamlegt að taka slíkar fjárfestingaákvarðanir út frá stundarverði. Allt ferlið sem snýr að leyfisveitingum, hönnun, undirbúningi og framkvæmdum er fjögurra til fimm ára ferli.

Hins vegar er raunhæfara til skemmri tíma að bæta við virðisaukandi framleiðslu við Grundartanga, til að mynda álboltaframleiðslu. Þó að álagið á álbolta yfir hrááli sé 1000 Bandaríkjadalir núna, þá myndum við samt alltaf horfa á 250 Bandaríkjadala langtímameðaltalið til að ákveða hvort fjárfestingin borgi sig.

Það er snúið að taka langtíma­ákvarðanir út frá skammtímaverði. Eftirspurn grænna álbolta er hins vegar að aukast í Evrópu og hefur verið um lengri tíma og því höfum við lagt mikla áherslu á að koma því verkefni af stað hér heima. En til þess að svo megi verða þurfum við að hafa betri vissu um raforkuverð okkar til framtíðar.

Það er langt síðan við höfum skoðað byggingu nýs kerskála á Grundartanga og því þyrfti að reikna það allt saman upp á nýtt ef ráðast ætti í það. Hins vegar er rétt að minnast á að núverandi framleiðslugeta Grundartanga er 320 þúsund tonn, en eftir síðustu viðbætur álversins var opinber framleiðslugeta 260 þúsund tonn.

Þessa aukningu í framleiðslugetu má rekja til snjallra stjórnenda Norðuráls hér á landi og það er ástæða fyrir því að þau hafa mikið að segja með rekstur álvera okkar í Bandaríkjunum, þau hafa staðið sig einstaklega vel á Grundartanga,“ segir Bless.


Framboð raforku eykst


Uppbygging endurnýjanlegrar orkuframleiðslu hefur verið hröð um allan heim á undanförnum árum, ekki síst vegna ýmiss konar hvata stjórnvalda í þá veru víða um heim. Bless segir að hröð aukning í framboði endurnýjanlegrar orku í Bandaríkjunum hafi breytt raforkulandslaginu þar á skömmum tíma. „Við erum núna í viðræðum við orkufyrirtæki í Bandaríkjunum um að byggja upp sólarorkuver við hlið einnar verksmiðju okkar í Bandaríkjunum. Við myndum kaupa allt rafmagnið sem framleitt er af fyrirtækinu.

Stóra myndin er sú að endurnýjanleg raforka er að koma inn af miklum krafti á raforkumarkaðinn í Bandaríkjunum og það miklu hraðar en slökkt er á kolaverunum. Stóraukið framboð rafmagns umfram aukningu í eftirspurn þýðir auðvitað að raforkuverð lækkar, og því erum við að borga í kringum 30 Bandaríkjadali með flutningsgjöldum fyrir megavattstundina í Bandaríkjunum um þessar mundir. Ef þú hefðir spurt mig hvort þetta yrði staðan fyrir fimm árum síðan hefði ég ekki haldið það. En það er gott að þetta sé að gerast, við þurfum að auka hlutfall hreinnar orku.

Sjálfbærni iðnaðarframleiðslu er eitt það mikilvægasta sem kaupendur og seljendur hrávara leggja áherslu á um þessar mundir

Hefur Ísland að þínu mati að einhverju leyti tapað samkeppnisforskoti sínu, í ljósi þess að uppbygging endurnýjanlegrar orkuframleiðslu hefur verið hröð, meðan annars í Bandaríkjunum? „Það er ekki hægt að reka álver eingöngu á sólarorku. Kannski eftir 10 ár þegar rafhlöðutækni hefur hugsanlega fleygt fram með þeim hætti að það sé hægt, en ég efast um það. Maður veit þó aldrei.

Vatnsafl og jarðvarmi hafa það umfram sólar- og vindorku að þeir orkugjafar eiga ekki á hættu að missa skyndilega afl, eins og gerist þegar vindurinn hættir að blása eða ský dregur fyrir sólu í tilfelli vind- og sólarorku.“


Hraðar verðhækkanir


Álverð hefur hækkað hröðum skrefum á síðastliðnum 14 mánuðum. Verð á áli fór niður í næstum því 1400 Bandaríkjadali fyrir tonnið í apríl á síðasta ári, þegar heimsfaraldurinn hafði læst klónum í alla heimsbyggðina og óvissan var mikil um hvenær sæi fyrir endann á ástandinu. Bless segir að ástæða ríflega 70 prósent hækkunar álverðs á síðasta rúma árinu sé tvíþætt.

„Ein þeirra skýrist af þróun til skemmri tíma og önnur til lengri tíma. Til skemmri tíma er skýringin á hækkun álverðs sú að í kjölfar þeirrar kreppu sem hófst fyrir alvöru í byrjun síðasta árs hrundi verð á flestum hrávörum. Eftirspurn áls hrundi en álver eru þess eðlis að það er ekki hægt að drepa á þeim, þau þurfa alltaf að halda áfram að framleiða á vissum lágmarksafköstum.

En hins vegar hættu okkar viðskiptavinir að panta hjá okkur vöru og það sama gilti um allflesta álframleiðendur heims. Þetta var einkum tilfellið í Evrópu, en þar lagðist iðnaðarframleiðsla af miklu hraðar en til dæmis í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðasta árs. Sem dæmi má nefna að þrýstimótun áls (e. extrusion) lagðist nánast af um nokkurra mánaða skeið í álfunni.

Álframleiðendur þurftu samt að keyra álverin áfram og þess vegna fór verðið afar langt niður. Síðan tók eftirspurn við sér aftur snemma á þessu ári og verðið rauk upp á ný. Við sjáum líka að álag á ýmsar áframunnar vörur, svosem álbolta (e. billets), er um það bil 1000 Bandaríkjadölum yfir LME-álverðinu. Þetta álag hefur verið um 250 Bandaríkjadalir á síðastliðnum árum, en þetta er til marks um einstaklega kröftuga eftirspurn,“ segir hann.

„Það er margt sem bendir til þess að kínversk stjórnvöld séu að taka umhverfismálin fastari tökum um þessar mundir og því teljum við líklegt að það hafi bæði áhrif á innlenda framleiðslu áls og útflutning þess,“ segir Bless.

Bless bendir þó einnig á að aðrir kraftar séu að verki. „Sjálfbærni iðnaðarframleiðslu er eitt það mikilvægasta sem kaupendur og seljendur hrávara leggja áherslu á um þessar mundir. Framleiðsla áls er ein sú orkufrekasta sem til er, en hins vegar býr málmurinn yfir einstökum eiginleikum. Það er hægt að endurvinna ál fimm til sjö sinnum áður en það hættir að vera nothæft, en það er ekki hægt að segja það um neinn annan málm sem framleiddur er á stórum skala. Fleiri og fleiri hafa áttað sig á þessari staðreynd. Þess vegna er augljóst að út frá sjálfbærnisjónarmiðum er ál einn besti kosturinn í margs konar iðnaðarframleiðslu.“


Vatnaskil í Kína


Frá aldamótum hefur framleiðsla áls í Kína aukist hröðum skrefum. Landið á miklar kolabirgðir sem og báxítbirgðir, sem þýddu að álframleiðsla óx hröðum skrefum upp úr aldamótum. „Nákvæmlega núna er álmarkaðurinn í Kína í jafnvægi, stundum flytja þeir smáræði út og stundum þurfa þeir að flytja inn – ólíkt því sem var á árunum 2011-2019,“ segir Bless.

Hann bendir á að í kringum árið 2000 framleiddi Kína um það bil 20 prósent af áli heimsins en fljótlega verði þetta sama hlutfall nærri 60 prósent. „Kínverjar eiga töluvert af báxíti en þeir eiga enn þá meira af kolum. Ál er oft kallað orka í föstu formi, sökum þess hversu orkufrekt er að framleiða það.

Þrátt fyrir að núverandi markaðsverð á áli myndi auðvitað réttlæta stækkun við Grundartanga er ekki skynsamlegt að taka slíkar fjárfestingarákvarðanir út frá stundarverði.

Hins vegar er staðan orðin sú núna að raforkuverð í Kína er um það bil tvöfalt hærra en til að mynda í Bandaríkjunum. Megavattstundin í Kína kostar núna um 60 Bandaríkjadali á meðan afhent orka í Bandaríkjunum kostar um 28 til 32 Bandaríkjadali fyrir megavattstundina, innan við helming af orkuverðinu í Kína.

Því er eðlilegt að Kínverjar hafi spurt sjálfa sig – hvers vegna erum við að flytja þessa dýru raforku út í formi áls? Er ekki eðlilegra að þeir sem njóti hagkvæmara raforkuverðs flytji út ál? En þrátt fyrir þetta héldu Kínverjar áfram að bæta við sína framleiðslugetu og margir klóruðu sér í kollinum yfir því, þar sem þeir höfðu í raun ekki samkeppnisforskot með tilliti til orkukostnaðar, sem er stærsti, einstaki kostnaðarliður álframleiðslu. Þeir eiga mikið af kolum, en flytja líka inn mikið af þeim.

Að miklu leyti snerist þetta um atvinnusköpun. Álver í Kína, sambærilegt að stærð og Grundartangi, skapar störf fyrir um 2500 manns, að undanskildum afleiddum störfum. Í samanburði starfa um 600 manns að Grundartanga þar sem tæknivæðing er töluvert meiri. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að kínversk stjórnvöld séu að taka umhverfismálin fastari tökum um þessar mundir og því teljum við líklegt að það hafi bæði áhrif á innlenda framleiðslu áls og útflutning þess,“ segir Bless.


Ísland er sterkt vörumerki


Bless hefur þegar látið formlega af störfum en mun verða nýjum forstjóra til liðsinnis fram á fyrstu mánuði næsta árs. Stór hluti starfs hans hjá Century hefur snúið að Íslandi með einum hætti eða öðrum.

Getur hann hugsað sér að starfa áfram á Íslandi í einhverju formi?

„Ekkert er ákveðið í þeim efnum en Íslands er frábær staður til að stunda viðskipti. Hér er til alveg ótrúlega mikið af duglegu og hugmyndaríku fólki miðað við mannfjöldann. Ísland er mjög sterkt vörumerki, sérstaklega með tilliti til sjálfbærni. Heimurinn var lengi í afneitun gagnvart loftslagsbreytingum en það er loksins að breytast. Fá lönd hafa jafngóða sögu að segja og Ísland þegar kemur að sjálfbærni og hreinni orku. Við sjáum að Landsvirkjun er þegar að flytja út þekkingu í virkjunum svo að íslenskt hugvit getur gegnt mikilvægu hlutverki við orkuskipti um allan heim,“ segir Mike Bless, fráfarandi forstjóri Century Aluminum.

Reisa átti álver af stærðargráðunni 270 til 360 þúsund tonn.

Hefði viljað klára álverið í Helguvík


Fyrsta skóflustungan að fyrirhuguðu álveri í Helguvík var tekin í júní 2008, en fyrirhugað var að reisa álver af stærðargráðunni 270 til 360 þúsund tonn. Þegar fjármálakreppan reið yfir á árinu 2008 stöðvaðist verkefnið, en tveimur til þremur árum síðar hóf Century áframhaldandi vinnu við verkefnið. Hins vegar kom á daginn að ýmislegt vantaði upp á svo að álverið gæti risið.

Áhöld voru uppi um hvort næg orka væri fyrir hendi á Reykjanesskaga til að knýja álverið, sem hefði þurft um það bil 600 megavött af uppsettu afli. Álverð var einnig lágt á þessum tíma, eða á bilinu 1700 til 1800 Bandaríkjadalir fyrir tonnið. Í ljósi álverðstengingar orkusölusamninga á Íslandi var því erfitt fyrir samningsaðila að ná saman um raforkuverð sem gengi upp fyrir báða.

En hvenær gerði Bless sér endanlega grein fyrir því að ekki yrði að byggingu álversins? „Ég vildi óska þess að af byggingu álvers við Helguvík hefði orðið. Ætli það séu ekki svona þrjú eða fjögur ár síðan sem ég endanlega sætti mig við þessa niðurstöðu.

Við erum vissulega búnir að afskrifa verkefnið af okkar bókum núna og þá sást hvaða fjármuni við höfum sett í verkefnið, um það bil 150 milljónir Bandaríkjadala.

Auðvitað fór allt á ís þegar fjármálakreppan reið yfir árið 2008, en við reyndum í mörg ár að finna fjármögnunina og raforkuna til að klára verkefnið. Við erum vissulega búnir að afskrifa verkefnið af okkar bókum núna og þá sást hvaða fjármuni við höfum sett í verkefnið, um það bil 150 milljónir Bandaríkjadala (18 milljarðar íslenskra króna).“

Innflutningstollar á ál til Bandaríkjanna skiptu sköpum


Einn af öngum hins svonefnda viðskiptastríðs Donalds Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, voru innflutningstollar á ál. Lagður var 10 prósent innflutningstollur á ál til Bandaríkjanna, með ýmsum undanþágum þó. Bless nefnir að ríkisstjórn núverandi forseta Joe Biden hafi viðhaldið sömu stefnu og jafnvel gengið harðar fram ef eitthvað er. Bless var meðal stjórnenda úr bandaríska álgeiranum sem voru viðstaddir á skrifstofu Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu þegar tollarnir urðu staðreynd með tilskipun forseta þar að lútandi. „Tollarnir þýddu að við gátum endurræst eitt álvera okkar í Kentucky í Bandaríkjunum. Álframleiðsla hefur dregist mikið saman í Bandaríkjunum á síðustu árum samfara framleiðsluaukningunni í Kína.“

Bent hefur verið á að ál sé strategískt mikilvægur málmur, einkum og sér í lagi fyrir land eins og Bandaríkin. Það sé notað í framleiðslu raftækja, bifreiða og hergagna svo eitthvað sé nefnt. Því sé ekki óska­staða að vera öðrum háður um aðgang að málminum. Þar að auki hefur OECD birt rannsókn sem sýnir að áliðnaður er niðurgreiddur um nánast allan heim, nema í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Sérfræðingar Goldman Sachs benda á að allt leggist á eitt við að styðja við álverð á næstu árum.
Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Spáir að álverð fari í 3.500 dollara innan fimm ára


Bandaríski fjárfestingabankinn sendi frá sér greiningu á álmarkaði fyrr í þessum mánuði. Fram kemur að málmurinn og framleiðsla hans feli í sér ákveðna mótsögn. Á sama tíma og álframleiðsla sé að baki tveimur prósentum allrar losunar koltvísýrings af mannavöldum, þá sé málmurinn lykillinn að orkuskiptum og minnkun útblásturs. Það er meðal annars vegna þess að hann sé nauðsynlegur við framleiðslu hluta líkt og sólarorkupanela og rafmagnsbíla. Goldman Sacks spáir því að álverð muni hækka hratt og örugglega á næstu árum og ná verðinu 3500 Bandaríkjadölum á tonnið árið 2025.

Það þýðir um 45 prósent hækkun frá núverandi verði, sem hefur þó hækkað um meira 70 prósent frá því að það náði sínum mestu lægðum í kórónukreppunni. Benda sérfræðingar bankans á að allt leggist á eitt við að styðja við álverð á næstu árum. Kínverjar gera nú strangari mengunarkröfur við framleiðslu og grænir skattar í Evrópu fara inn í kostnaðinn við framleiðslu þar.

Að sama skapi er líklegt að svokölluð kolefnislandamæri verði tekin upp í Evrópu, þar sem innflutningstollar verði lagðir á ál sem framleitt er með kolum, jarðgasi eða öðrum orkugjöfum sem eru einna mest mengandi með tilliti til losunar koltvísýrings. Á sama tíma er eftirspurn að aukast mjög í Evrópu, en þar hefur framleiðslugeta áls dregist saman síðustu 20 ár og engar nýjar fjárfestingar í framleiðslu hafa átt sér stað um skeið.