Boranir eftir grunnvatni og jarðsjó hafa staðið yfir í Helguvík á síðustu vikum, en Samherji fiskeldi og Norðurál undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í október síðastliðnum að Samherji kaupi lóð og fasteignir á svæðinu af Norðuráli og nýti undir laxeldi á landi. Byggingar Norðuráls við Helguvík eru alls 23 þúsund fermetrar og lóðin er um 100 hektarar. Kaupverð eignanna liggur ekki fyrir.

Heimildir Markaðarins herma að tugum milljóna hafi verið kostað til við boranir á undanförnum vikum. Líklegt er að niðurstaða frumathugunar er snýr að annars vegar magni og hins vegar hitastigi grunnvatns og jarðsjávar á svæðinu muni liggja fyrir um eða upp úr næstu mánaðamótum, en segja má að verkefnið standi og falli með því að þessi ákveðni þáttur sé viðunandi.

Þegar og ef landeldið við Helguvík verður að raunveruleika gera áætlanir Samherja ráð fyrir því að slátra allt að 20 tonnum af laxi daglega og senda á erlenda markaði með flugi, að því er heimildir Markaðarins herma. Það þýðir að árleg framleiðslugeta gæti orðið yfir 7.000 þúsund tonnum, ef slátrað er allflesta daga ársins. Núverandi framleiðslugeta Samherja í laxeldi er um 1.500 tonn samkvæmt heimasíðu Samherja. Því myndi eldið í Helguvík margfalda framleiðslugetu fyrirtækisins.

Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum. Fyrirtækið rekur tvær áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.

Þar sem málið er enn þá á frumstigi hefur ekki farið fram umhverfismat á hugsanlegu landeldi við Helguvík. Sé litið til umsagna Skipulagsstofnunar um sambærileg verkefni má hins vegar áætla hversu mikillar vatnstöku úr jörðu er þörf til að landeldi sé mögulegt. Í umsögn vegna umsóknar Landeldis ehf. vegna 5.000 þúsund tonna landeldis við Þorlákshöfn á laxi, urriða og bleikju kemur fram að áætluð vatnstaka úr jörðu mæld í lítrum á sekúndu muni verða allt að 500 lítrar af ferskvatni, 2.350 lítrar af hálfsöltu grunnvatni og 2.650 lítrar af fullsöltum jarðsjó. Hins vegar er gert ráð fyrir allt að 75 prósenta endurnýtingu eldisvatns vegna verkefnisins við Þorlákshöfn, en endurnýtingarhlutföll hins hugsanlega verkefnis við Helguvík liggja ekki fyrir.

Markaður fyrir eldislax af Atlantshafsstofni hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. Fyrir um 30 árum var heildarframleiðsla um 400 þúsund tonn á heimsvísu. Samkvæmt nýlegum tölum frá Alþjóðamatvælastofnuninni nam eftirspurn ársins 2019 um 2,6 milljónum tonna og búist er við því að vöxtur eftirspurnar verði áfram með sambærilegum hætti og undanfarin ár.