Netverslunin Boozt hefur selt Íslendingum fyrir um 900 milljónir íslenskra króna frá því í júlí á þessu ári þegar hún hóf að senda til Íslands. Þetta kom fram í máli Peters G Jörgensen, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs netverslunarinnar, á lokuðum viðburði sem ÍMARK stóð fyrir í vikunni, að því er Innherji greinir frá.

„Íslendingar hafa tekið vel á móti okkur,“ segir Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt.com, í samtali við Markaðinn í dag. Hann segir að vöruúrval og þjónusta Boozt falli vel í kramið hjá Íslendingum.

„Boozt.com er stærsta netverslun Norðurlandanna,“ að því er Hermann sagði í opnuviðtali við Markaðinn í júní. Hann lýsti netversluninni sem stórverslun (e. department store) sem selji margvíslegar vörur eins og tískufatnað, íþróttaföt og heimilisbúnað.

Hermann sagði í viðtalinu að horft væri til þess að veltan verði 5,5 milljarðar sænskra króna í ár, jafnvirði 80 milljarða íslenskra króna, sem yrði um 25 prósenta vöxtur á milli ára, og að tekjur verði tíu milljarðar sænskra króna, jafnvirði 145 milljarða, eftir þrjú til fjögur ár.

Boozt hefur verið rekið með hagnaði frá árinu 2016.

Hermann hefur verið búsettur í Danmörku frá 14 ára aldri.